– Eftir Fríðu Hrönn Halldórsdóttur
Greinin hér að neðan er unnin úr heimildaritgerð sem Fríða Hrönn vann í áfanga í Háskólanum á Akureyri.
7 árum og 25 dögum eftir að eldgos hófst á Heimaey fæddist ég á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Ég er alin upp við “fyrir gos” og “eftir gos” í samfélaginu mínu og framan af hafði ég aldrei óþægilega tilfinningu fyrir eldgosi og var aldrei hrædd um að það myndi gjósa. Mér fannst fólkið mitt aldrei tala um ótta tengt þessum atburðum. Það var í raun og veru ekki fyrr en að ég sat og horfði á heimildarmyndina Ég lifi sem að fjallar um eldgosið á Heimaey þegar að Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur segir í myndinni “Heimaey er einn af fáum stöðum á Íslandi sem að ég myndi aldrei búa á”. Þessi heimildarmynd kom út árið 2003 og þetta var í fyrsta sinn sem að greip um mig ónotatilfinning tengt eldgosinu. Þarna var eins og ég áttaði mig á því að ég byggi á eyju sem að væri virk gosstöð þrátt fyrir að hafa alla tíð verið meðvituð um það. Ég fór að velta fyrir mér að ég hefði aldrei áttað mig á þeirri stöðu sem foreldrar mínir og fólkið mitt var í. Að vakna upp um nótt þar sem að var eldgos, þurfa að flýja heimilið sitt og geta ekki komist heim til sín aftur og vita ekki hvort eða hvenær hægt væri að fara heim.
Í gegnum tíðina hef ég kynnst mörgu góðu fólki sem að hefur verið hér “fyrir og eftir gos” og þó svo að ég viti það ekki til fulls að þá er ég samt sem áður nokkuð viss um að í einhverjum tilfellum hafi ég hitt fólk sem að var að glíma við afleiðingar eftir eldgosið. Það er heldur ekki langt síðan ég fór að velta því fyrir mér að rúm 7 ár eru ekki langur tími. Ég er sannfærð um að það hefur haft heilmikið að segja fyrir mig að hafa fæðst inn í fjölskyldu sem að var flóttafólk um tíma, heimilislaust og lifði í mikilli óvissu. Það hreinlega hljóta að hafa fylgt því áhyggjur af mörgum hlutum og jafnvel áfall hvort sem að fólk gerði sér grein fyrir því eða ekki.
Fullorðið fólk í eldgosinu
Þorgeir Magnússon sálfræðingur sagði frá því í grein í Morgunblaðinu (2018) að Eyjamenn hefðu í raun fengið að minnsta kosti þrjú áföll í gosinu. Fyrsta áfallið hefði verið eldgosið sjálft. Þegar að það kemur skipun frá Almannavörnum að allir skuli yfirgefa heimili sín og þau þurfi að flýja út í óvissuna. Annað áfallið hafi verið veran á fastalandinu. Allir komnir í nýtt umhverfi og enginn vissi í raun og veru stöðu sína, hvað þau væru að gera eða hver framtíðin yrði. Þriðja áfallið er talin vera heimkoman. Þegar að fólk flutti heim. Mikil breyting og vonin um það að allt verði eins og það var er brostin. Við tekur mikil vinna, miklar breytingar og algjörlega nýtt umhverfi. Auk þessara þriggja þátta þá telur Þorgeir Magnússon að þær miklu breytingar sem að þetta fólk fór í gegnum hafi ollið mikilli streitu hjá fólki. Það hafi haft mikil áhrif á samskipti og sambönd á milli einstaklinga, hafði mikil áhrif á hjónabönd og tengsl á milli fjölskyldu, vina og ættingja.
Þorgeir segir einnig frá því að það mætti hafa það í huga að árið 1972 var náttúran fögur, samfélagið samhelt, kraftmikið og fjörugt. Einangrunin var að sjálfsögðu til staðar en á sama tíma bar á sjálfbærni og sjálfstæði þeirra sem að bjuggu í Vestmannaeyjum. Í gosinu umturnaðist allt og allt varð svart og marg mikið skemmt eða ónýtt. En Þorgeir bjó einmitt í Vestmannaeyjum árið 1972.
Börnin í eldgosinu
Þorgeir kemur einnig inn á það að í einhverjum tilfellum hafi það verið þannig að foreldrar hafi verið í það miklu áfalli að öryggistilfinningu barna skertist. Nánasta umhverfi barnanna var farið og það öryggi sem börnum er svo mikilvægt og börnin fundu undir venjulegum kringumstæðum hjá foreldrum sínum var ekki lengur til staðar.
Eina rannsóknin sem að ég hef séð eða veit um í tengslum við börn og gosið á Heimaey er rannsókn sem að Þorgeir Magnússon gerði grein fyrir í MA-rigerðinni sinni 1976 þar sem að hann greinir frá því að miðað við niðurstöður í rannsókninni hans þá hafi stúlkur tekið gosið meira nærri sér á meðan á því stóð. Það hafi komið fram í vanlíðan, kvíða og lakari einkunum á sama tíma og drengir frá Vestmannaeyjum hefðu ekki sýnt sömu niðurstöður a.m.k. fyrstu árin á eftir. Þorgeir var með tvo hópa í rannsókninni 10 drengi og 10 stúlkur frá sjávarþorpinu Akranesi og hinsvegar frá Vestmannaeyjum. Öll áttu þau það sameiginlegt að hafa verið 7 ára árið 1973. Þorgeir notaði DTM- sálfræðipróf sem að próf sem að mælir varnarhætti einstaklings og hvaða aðferðir hann notar til þess að verja sig fyrir andlegum óþægindum. En þrátt fyrir að í fyrstu virtist gosið ekki vera að hafa sömu áhrif á drengi í námi fyrst eftir gos þá kom það fram að þegar að líða fór á að drengirinir fóru að upplifa meiri einangrun og námsgetan varð lakari. En þegar að líða fór á hjá stúlkunum þá virtust þær ná aftur fyrri styrk í námi og eftir þrjú ár virtust þær hafa unnið sig upp og þroskast að einhverju leiti upp úr ástandinu og þessum nokkru árum. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að drengirnir hefðu farið þetta á hörkunni og ekki tekist á við ástandið á meðan á því stóð.
Þorgeir segir í þessari grein í Morgunblaðinu að það sé mannskeppnunni eðlislægt að halda slæmum tilfinningum í fjarlægð. Það geti í raun og veru líka alveg gerst að manneskja geti vanist því að líða illa með því að forðast óþægilegar tilfinningar og bæla þær niður, ýta þeim til hliðar eða jafnvel tileinka þeim öðrum. En það geti í raun og veru ekki gengið upp endalaust og það komi tími þar sem að fólk þarf að gera upp erfiða reynslu og takast á við óþægindi.
Sálrænt áfall
Þegar að talað er um áfall í sálfræði er átt við sálrænt áfall (e. psycological trauma). Þá er um að ræða atburð eða aðstæður þar sem að einstaklingur upplifir ógn við sín persónulegu mörk eða tilveru sína. Með því getur einstaklingur upplifað erfiðar hugsanir eða tilfinningar á borð við hjálparleysi, ótta eða óhug tengdum áfalli sem einstaklingurinn varð fyrir eða varð vitni að. Oft á tíðum fylgja einnig líkamleg einkenni sálrænu áfalli eins og t.d. hröð öndun, skjálfti, aukinn hjartsláttur og kaldur sviti.
Neyðarþjónusta
Þegar að gaus á Heimaey og flestir íbúanna voru komnir í öruggt skjól var í fyrsta sinn á Íslandi reynt að skipuleggja neyðarþjónustu til þess að mæta félagslegum- fjárhagslegum- og sálrænum vanda. Þjónustunni var komið upp í Reykjavík og til staðar voru félagsráðgjafar, lögfræðingar og geðlæknar viðbúnir til þess að veita Vestmannaeyingum aðstoð. Vestmannaeyingar nýttu sér þjónustu sem að beindist að félagslegum- og fjárhagslegum vanda og var því mikið leitað til félagsráðgjafa og lögfræðinga. Þegar að kom að sálrænum vanda og að leita til geðlækna voru eyjamenn almennt tregir og þáðu ekki þá þjónustu og litu á að þeir væru fullfærir að ráða fram úr sínum persónulegu vandamálum sjálfir. Í samræmi við þetta þá höfnuðu bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum að gerð yrði rannsókn á afleiðingum eldgossins á íbúa og þá sem að störfuðu við neyðarþjónustu í eldgosinu.
Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að fólks sem að fær sálræna aðstoð strax eða u.þ.b. mánuði eftir áfall býr yfir betri geðheilsu á fullorðinsárum en þeir sem að fá sálræna aðstoð seinna eða aldrei.
Heilsubrestir og áföll
Rannsóknir sýna fram á að um helmingur kvenna og um helmingur karla verði fyrir einhverskonar áfalli á lífsleiðinni. Nýjustu rannsóknir sýna að áföll hafa ekki eingöngu áhrif á einstaklinga andlega og líkamlega heldur líka lífeðlisfræðilega. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl á milli langvarandi streitu og hjarta- og æðasjúkdóma síðar á ævinni. Það gerist þegar að streituviðbragð líkamans er nánast stöðugt í gangi, streituhormón í miklu magni í langann tíma og það tvennt eykur líkurnar á líkamlegum kvillum. Mikil streita hjá börnum getur haft áhrif á heilaþroska með þeim afleiðingum að það hefur áhrif á vitsmunaþroska, hegðun og líkamlega- og andlega heilsu. Langtíma streita veikir einnig ónæmiskerfið sem að eykur líkur á sjúkdómum seinna á ævinni.
Börn og unglingar sem að lenda í áfalli á lífsleiðinni og eiga gott stuðningsnet eins og góða vini eða góð tengsl við fjölskyldu getur haft góð áhrif á heilsu þessara einstaklinga seinna á ævinni ef að einstaklingurinn á sögu um áfall.
Samantekt á upplifun einstaklings sem að er fædd eftir gos
Það að hafa verið í eldgosinu á Heimaey hefur verið átakanlegt hvort sem að um hefur verið að ræða barn eða fullorðinn. Það er áhugavert að fara yfir staðreyndir í sögunni. Og það sem að kemur á óvart er helst að komast að því að sjá það svart á hvítu að Vestmannaeyingar hafi í raun hafnað sálrænni aðstoð í eldgosinu og það að eftir gos hafi bæjaryfirvöld hafnað því að rannsóknir yrðu gerðar á þeim afleiðingum sem að eldgosið hafði á íbúana. Það er aðeins til þessi eina rannsókn sem að Þorgeir Magnússon gerði á 20 barna hópi í gosinu sjálfu og eftir gos.
Eldgos, flótti frá heimili og mikil óvissa hefur án efa áhrif á einstaklinga og langvarandi áhrif. Ég er sannfærð um að það hefur verið mótandi fyrir einstaklinga að hafa lent í að þurfa að flýja heimili sitt og samfélag og búa við óvissu. Það hefur án efa mótað fólk sem einstaklinga hvert á sinn hátt. Helstu líkamlegu einkenni eftir sálræn áföll eru hjarta- og æðasjúkdómar, öndunarfærasjúkdómar og meltingarfærasjúkdómar (Hornor, 2015). En þá eru ekki talin upp einkenni áfallastreitu og gæti verið gott fyrir fólk að skoða þau einkenni og sjá hvort að á einhverjum tímapunkti hafi þau einkenni jafnvel átt við. Ég veit ekki nákvæmar tölur í dag en við heimafólk áttum lengi vel met í innlögnum á Vog og heimsóknum á heilsugæsluna, og ég er ekki meðvituð hvort að sú staða hafi einnig verið fyrir gos. Ég hefði þurft að geta hringt í Einar Gutt til þess að spyrja nánar út í það.
Með þessari samantekt þá langar mig til þess að hvetja fólk til þess að tala saman, tala upphátt hvort sem að það er við sitt samferðafólk, fagaðila, sálfræðing, prest eða ráðgjafa, segja sína sögu. Það verður líka að viðurkennast að í þessum áhuga mínum á eldgosinu á Heimaey og tengsl sögunar við sálarlíf fólks fyllist ég á sama tíma líka stolti af fólkinu sem kom heim, byggði hér aftur upp heimili sín, fyrirtækin sín og var þátttakandi í endurreisn og nýju lífi, fyrir þá seiglu og dugnað er ég þakklát.
Fríða Hrönn Halldórsdóttir
Heimildir
American Psychiatric Association (APA). (2013). Diagnostic and statistical manual of mental disorders (DMS-5). Wasington DC: American Psychiatric Pub.
Bucci, M., Marques, S. S., Oh, D., og Harris, N. B. (2016). Toxic Stress in Children and Adolescents. Advances in Pediatrics, 63(1), 403-428. doi:10.1016/j.yapd.2016.04.002
Folger, A. T., Eismann, E. A., Stephenson, N. B., Shapiro, R. A., Macaluso, M., Brownrigg, M. E., & Gillespie, R. J. (2018). Parental adverse childhood experiences and offspring development at 2 years of age. Pediatrics, 141(4). doi:/10.1542/peds.2017-2826
Friedman, M.J. og Resick, P.A. (2014). DSM-5 Criteria for PTSD. Í Friedman, MJ., Keane, T.M. og Resick, P.A., Handbook og PTSD Science and Practice. (Bls.1291). New York; The Guilford Press.
Guðrún Erlingsdóttir. (2018). Doði, kvíði og varnarleysi. Grein sem birtist í Morgunblaðinu 25.janúar 2018.
Guðjón Ármann Eyjólfsson. (1973). Vestmannaeyjar. Byggð og eldgos. Reykjavík: Ísafoldarprenntsmiðja.
Hornor, G. (2015). Childhood Trauma Exposure and Toxic Stress: What the PNP Needs to Know. Journal of Pediatric Health Care, 29(2), 191-198. doi:https://doi.org/10.1016/j.pedhc.2014.09.006
Kessler, R. C., Aguilar-Gaxiola, S., Alonso, J., Benjet, C., Bromet, E. J., Cardoso, G., Degenhardt, L., de Girolamo, G., Dinolova, R. V., Ferry, F., Florescu, S., Gureje, O., Haro, J. M., Huang, Y., Karem, E. G., Kawakami, N., Lee, S., Lepine, J. P., Levinson, D., Navarro-Mateu, F., Pennell, B. E., Piazza, M., Posada-Villa, J., Scott, D. J. Ten Have, M., Torres, Y., Viana, M. C., Petukhova, M. V., Sampson, N. A., Zaslavsky, A. M. og Koenen, K. C. (2017). Trauma and PTSD in the WHO World Mental Health Surveys. European Journal of Psychotraumatology, 8(5), 1353383. doi:10.1080/20008198.2017.1353383.
Páll Ásgeirsson (1992, febrúar). Emergency clinic during volcanic eruption, Westman Island, Iceland 1973. Erindi á 2nd International Conference on Crisis Interverntion and Community Mental Health, Hyderabad, India.
Pitillas, C. (2020). Common therapeutic elements of interventions aimed at enhancing parent– child early relationships. Psychoanalytic Psychology, 37(1), 28–36. doi:/10.1037/pap0000234
Price, M., Kearns, M., Houry, D., & Rothbaum, B. O. (2014). Emergency department predictors of posttraumatic stress reduction for trauma-exposed individuals with and without an early intervention. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 82(2), 336–341. doi:10.1037/a0035537
Sigrún Karlsdóttir og Páll Ásgeirsson (1973). Psyhiatric emergency clinic for refugees from volcanic eruption. Erindi á 17th Nordic Congress of Psychiatry. Úrdráttur í Acta Psyciarica, 243, 65-66.
Tinna Sif Bergþórsdóttir (2020). The impact of childhood trauma and early intervention on mental health in adulthood. Háskólinn í Reykjavík, Reykjavík.
Þorgeir Magnússon. (2018). Áföll í tengslum við gosið. Raunveruleikinn skellur á. Grein sem birtist í Morgunblaðinu 5.júlí 2018.
Þorgeir Magnússon. (2018). Lakari námsárangur. Grein sem birtist í Morgunblaðinu 5.júlí 2018.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst