Ársreikningur Ísfélagsins var kynntur í dag, en óhætt er að segja að árið í fyrra hafi verið viðburðarríkt hjá félaginu.
Hæst ber að nefna sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. en sameinað félag var í kjölfarið skráð á markað. Heildarafli skipanna var rúmlega 151 þúsund tonn og var bolfiskafli skipa félagsins tæp 24 þúsund tonn. Framleiddar afurðir voru um 70 þúsund tonn á árinu.
Eignir upp á tæpa 110 milljarða
Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi ársins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2023 (137,98) voru rekstrartekjur félagsins 26,8 milljarðar íslenskra króna.
Hagnaður ársins nam 5,3 milljörðum króna og var EBITDA félagsins 9,8 milljarður króna.
Eignir félagsins í lok árs 2023 eru færðar í íslenskar krónur á genginu (136,2). Í lok árs 2023 voru heildareignir félagsins 109,6 milljarðar króna. Fastafjármunir námu 90,4 milljörðum króna og veltufjármunir 19,2 milljörðum króna. Eigið fé í lok ársins 2023 voru 75,5 milljarðar króna og voru skuldir og skuldbindingar 34,1 milljarðar króna.
Þakkar þátttakendum í útboðinu
Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélagsins segir að árið 2023 hafi verið gott og viðburðarríkt ár í langri sögu félagsins.
„Í upphafi ársins lá fyrir ákvörðun stjórna Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. að stefna að sameiningu félaganna og skráningu á markað. Félögin voru sameinuð miðað við 30. júní 2023 og nafni félagsins breytt í Ísfélag hf.
Félagið var þann 8. desember 2023 skráð á markað á aðallista Nasdaq á Íslandi. Í hlutafjárútboðinu sem var haldið í aðdraganda skráningarinnar var mikil eftirspurn eftir hlutabréfum í félaginu og er sérstök ástæða til að þakka þátttakendum í útboðinu og hluthöfum fyrir það mikla traust sem þeir hafa á félaginu. Við hjá Ísfélaginu erum ánægð að vera komin í hóp frábærra fyrirtækja sem eru skráð á markað á aðallista Nasdaq á Íslandi.
Reksturinn gekk vel á árinu
Loðnuvertíðin var góð, veiðin gekk vel, bæði aflabrögð og vinnsla. Framleiðsla loðnuhrogna var mikil á árinu, m.a. vegna þess að aflaheimildir voru auknar verulega þegar langt var liðið á vertíðina. Vegna þessa fór framboð á hrognum á Íslandi langt fram úr eftirspurn sem olli verðlækkun og birgðasöfnun.
Síldarveiðar gengu afar vel á árinu, veiðin var góð og stutt á miðin og fiskurinn góður.
Ísfélagið veiddi um 127 þúsund tonn af uppsjávarfiski á árinu og framleiddi um 32 þúsund tonn af frystum afurðum og 29 þúsund tonn samtals af mjöli og lýsi.
Verð á uppsjávarafurðum, fyrir utan loðnuhrognum, var gott, hvort sem um var að ræða frosnar afurðir eða mjöl og lýsi.
Bolfiskafli skipa félagsins var um 24 þúsund tonn á árinu 2023 og er þá afli skipa Ramma fyrstu sex mánuði ársins meðtalinn.
Framleiðsla afurða í bolfiski var um 14,5 þúsund tonn. Vinnsla á afurðum gekk vel bæði á landi og um borð í frystitogaranum Sólbergi. Verð á bolfiskafurðum lækkaði á árinu en hefur nú hækkað aftur í flestum afurðum.
Umtalsverðar fjárfestingar
Umtalsverðar fjárfestingar voru á árinu 2023. Ný loðnuhrognavinnsla í Vestmannaeyjum var tekin í notkun. Í mars keypti félagið 29% hlut í eignarhaldsfélaginu Austur Holding, sem er stærsti eigandi í Ice Fish Farm, sem er laxeldisfyrirtæki á Austurlandi. Kaupin á hlutnum í Austur Holding jafngilda 16,4% hlut í Ice Fish Farm. Nýr togari, Sigurbjörg, er í smíðum í Tyrklandi sem von er á til landsins á næstunni. Sigurbjörg mun koma í stað eldri skipa félagsins sem verða seld eða lagt. Félagið fjárfesti einnig í vinnslubúnaði í uppsjávar- og mjölvinnslum félagsins.“ segir Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélagsins, og hrósaði hann og þakkaði reynslumiklum og öflugum hópi starfsmanna til sjós og lands fyrir samstarfið og frábæran árangur á árinu.
Aðalfundur Ísfélags hf. verður haldinn miðvikudaginn 17. apríl nk.
https://eyjar.net/isfelag-hf-komid-a-adalmarkad/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst