Þess verður minnst í Eldheimum á fimmtudaginn, 23. janúar kl. 19.30 að þá verða 52 ár frá upphafi Heimaeyjargossins. Athöfnin verður helguð Ingibergi Óskarssyni sem á heiðurinn að verkefninu, 1973 – Allir í bátana. Þar er m.a. að finna nöfn meginþorra þeirra sem flúðu Heimaey gosnóttina og með hvaða bát fólkið fór. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá og ber þar hæst opnun nýrrar síðu þar sem heimildunum sem Ingibergur hefur safnað um þessa stærstu björgun Íslandssögunnar verða aðgengilegar. Einnig verður Ingibergur heiðraður fyrir þetta þarfa verk sem verður merkilegra með hverju árinu sem líður.
Eyjamaðurinn Ingibergur Óskarsson rafvirki hefur unnið mikið þrekvirki við að safna upplýsingum um flóttann mikla frá Heimaey 23. janúar 1973. Hann setti upp vefsíðuna 1973-alliribatana.com og einnig Facebook-síðuna 1973 í bátana til að vekja athygli á verkefninu og safna upplýsingum. Nú er hann búinn að skrá 5.049 manns, 2.630 karla og 2.369. Þar af voru 50 ófædd börn í móðurkviði.
Fólkið fór frá Eyjum með 58 bátum og skipum, flugi eða sat um kyrrt þessa nótt. Að auki komu a.m.k. þrír bátar til Eyja um morguninn til að sækja fólk en fóru farþegalausir til baka. Skráð er hvar hver farþegi átti heima, með hvaða báti hann fór og hverjir voru í áhöfn. Einnig hverjir fóru með flugi. Þess má geta að rúm 60% þeirra sem voru í Eyjum um gosnóttina voru enn á lífi um síðustu áramót.
Margir eiga minningar frá gosnóttinni og því má búast við góðri mætingu.
Dagskráin:
Stærsta björgun Íslandssögunnar
1973 – Allir í bátana
Dagskrá 23.01.25 í Eldheimum 19:30-21:00
Ómar Garðarsson ritstjóri kynnir dagskrána.
Frosti Gíslason – 1973 Allir í bátana á Heimaslóð.
Gísli Pálsson – Heimaey og Herculaneum: Systrabæir?
Guðrún Erlingsdóttir – Konurnar gosnóttina á Heimaey 1973.
Hlé
Ásmundur Friðriksson – Þegar beljurnar á Kirkjubæ fóru í bæinn.
Ingibergur Óskarsson heiðraður: Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst