Eftirfarandi grein birti Gylfi Viðar Guðmundsson, fyrrverandi skipstjóri Hugins VE á Fésbókarsíðu sinni.
𝐕𝐞𝐠𝐧𝐚 𝐬𝐤ý𝐫𝐬𝐥𝐮 𝐑𝐍𝐒𝐀 𝐨𝐠 𝐟𝐫é𝐭𝐭𝐚𝐫 𝐟𝐫á 𝐕𝐒𝐕
Nú liggur fyrir skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) um mál er ankeri Hugins VE55 festist í innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn 17.nóvember 2023. Þar sem Vinnslustöðin brást þegar í stað við með frétt til að svara niðurstöðum þeirrar skýrslu er rétt að ég sem skipstjóri í umræddri ferð komi nokkrum punktum á framfæri. Í frétt Vinnslustöðvarinnar (VSV) óska stjórnendur eftir að opinberri umræðu verði stillt í hóf af tillitsemi við alla sem í hlut eiga.
Ó𝐬𝐤 𝐮𝐦 𝐡ó𝐟𝐬𝐭𝐢𝐥𝐥𝐭𝐚 𝐮𝐦𝐫æð𝐮 𝐞ð𝐚 þö𝐠𝐠𝐮𝐧 ?
Yfirlýsingar framkvæmdarstjóra VSV í þessu máli m.a opinberlega og í sjórétti hafa hins vegar ekki einkennst af tillitsemi heldur því að sverta mannorð og starfsheiður fyrrverandi skipstjórnarmanna á Huginn VE55. Hann hefur opinberlega nafngreint okkur, ásakað og stillt upp sem vanhæfum. Mönnum sem hafa unnið af heilindum fyrir sitt byggðarlag og haft það sem meginmarkmið að fiska vel og skila áhöfn og skipi heilu og höldnu í höfn.
Samskiptahættir stjórnenda VSV virðast þó standa til bóta en samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) er stefnt að því að haldinn sé fyrirlestur um jákvæð og heilbrigð samskipti innan fyrirtækisins í kringum sjómannadaginn 2025, 19 mánuðum eftir að atvikið átti sér stað.
Í frétt VSV er því hafnað að ætlaður samskiptavandi sé á ábyrgð VSV heldur þess að skipstjórnarmenn (fyrrum eigendur útgerðarinnar) hafi ekki náð að aðlagast VSV. Áfram heldur VSV því áfram að sverta sína fyrrum starfsmenn og koma ábyrgðinni á aðra. Í sömu frétt þar sem tilgreindar eru niðurstöður skýrslu RNSA hefur vísvitandi verið sleppt að segja hver ástæðan var fyrir því að skipstjóri hafði ekki réttar forsendur til að meta staðsetningu ankerisins – enda liggur ábyrgðin hjá VSV.
𝐀𝐧𝐤𝐞𝐫𝐢𝐬𝐤𝐞ð𝐣𝐚𝐧 𝐯𝐚𝐫 𝐨𝐟 𝐬𝐭𝐮𝐭𝐭
Skipstjórnarmenn höfðu ekki vitneskju um að ankeriskeðjan væri of stutt þegar atvikið varð. Ankerið hefði aldrei tekið niður í innsiglingunni heldur austan við Bjarnarey ef rétt lengd hefði verið á keðjunni. Þar af leiðandi hefði skaðinn á vatnslögninni aldrei orðið sá sem hann varð. Enda hefur komið í ljós að það vantaði rúma 100 metra á ankeriskeðjuna.
𝐇𝐯𝐞𝐫 𝐞𝐫 á𝐬𝐭æð𝐚𝐧 𝐟𝐲𝐫𝐢𝐫 þ𝐯í 𝐚ð þ𝐚ð 𝐯𝐚𝐧𝐭𝐚𝐫 𝟐,𝟓 𝐤𝐥𝐬𝐭 á 𝐮𝐩𝐩𝐭ö𝐤𝐮𝐫 ú𝐫 ö𝐫𝐲𝐠𝐠𝐢𝐬𝐦𝐲𝐧𝐝𝐚𝐯é𝐥 ?
Það vantar 2 klukkutíma og 24 mínútur af upptökum úr öryggismyndavél sem er úti á dekki og vísar á ankerisspilið. Þessi tími gæti mögulega upplýst meira um hvað gerðist áður en ankerið festist í innsiglingunni.
Samkvæmt rannsóknarnefnd eru órofnar upptökur til í sex vikur aftur í tímann en það eru ekki til upptökur á landleiðinni fyrir atvikið frá Vík í Mýrdal og þangað til að komið er að innsiglingunni. Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja fór myndavélin aftur af stað eftir að komið var í innsiglinguna!
VSV sá um að greina og senda rannsóknarnefnd upptökur úr öryggismyndavélinni en sagðist ekki eiga tímann frá 14:47 – 17:11 þennan dag. Ástæða þess að myndefni frá þessum tíma er horfið hafa ekki komið fram frá stjórnendum VSV.
𝐀𝐟 𝐡𝐯𝐞𝐫𝐣𝐮 𝐡é𝐥𝐝𝐮 𝐛𝐫𝐞𝐦𝐬𝐮𝐫 á 𝐚𝐧𝐤𝐞𝐫𝐢𝐬𝐬𝐩𝐢𝐥𝐢𝐧𝐮 𝐞𝐤𝐤𝐢 ?
Það þarf tvennt að koma til að ankeri haldi, öryggislás sem VSV segir að hafi verið opinn í nokkrar vikur fyrir atvikið en líka bremsa á ankerisspili sem hífir og slakar keðjunni sem er annað öryggi. Rannsóknarnefnd vill meina að hún hafi verið illa eða óhert eða bremsan ekki setið rétt. Ástæður þess að svo hafi verið liggja þó ekki fyrir. Eftirlit með ankerisspili er á ábyrgð yfirvélstjóra og fram kom í sjóprófum að venja sé að smyrja og liðka kúplingu á ankerisspili einu sinni í viku og taka sjónskoðun í leiðinni.
𝐒𝐥𝐢𝐩𝐩𝐮𝐫 á 𝐀𝐤𝐮𝐫𝐞𝐲𝐫𝐢 í 𝐦𝐚í 𝐭𝐢𝐥 𝐣ú𝐧í 𝟐𝟎𝟐𝟑
Nokkrum mánuðum áður en atvikið varð fór Huginn VE55 í slipp á Akureyri. Skipstjórnarmenn voru sendir heim um leið og komið var með bátinn norður.
Það kom reyndar ekki á óvart þar sem stuttu áður höfðu stjórnendur VSV sagt að skipstjórnarmenn bæru enga ábyrgð á neinu er kæmi að viðhaldi hjá VSV. Það er erfitt að sjá hvernig frágangur og eftirlit með búnaði um borð í skipi getur verið fullnægjandi þegar upplýsingar fást ekki frá útgerðinni um viðhald. Fram kom í sjóprófum að sniðið hafði verið af ankerinu í slippnum því það hafi ekki passað eða verið af réttri stærð. Yfirvélstjóri greindi frá því að það hafi ekki verið tekið niður, en tæknilegur rekstrarstjóri greindi frá því í sjóprófum að það væri ekki hægt að sverfa af því nema að láta það síga.
Vitneskja um að keðjan á ankerinu var of stutt hefði því þarna átt að vera ljós hafi hún ekki verið það fyrir. Óljóst er einnig hvort gengið hafi verið rétt frá ankerinu eftir þessa framkvæmd. Skipstjórnarmenn voru ekki upplýstir um þessar framkvæmdir heldur fréttu af þeim eftir atvikið 17.nóvember 2023.
𝐒𝐤𝐢𝐩𝐬𝐭𝐣ó𝐫𝐧𝐚𝐫𝐦ö𝐧𝐧𝐮𝐦 𝐯𝐚𝐫 𝐡𝐚𝐥𝐝𝐢ð 𝐮𝐭𝐚𝐧 𝐯𝐢ð 𝐦á𝐥𝐢ð 𝐬𝐭𝐫𝐚𝐱 í 𝐮𝐩𝐩𝐡𝐚𝐟𝐢 𝐚𝐟 𝐡á𝐥𝐟𝐮 𝐕𝐒𝐕
Það ætti að vera allra hagur að upplýsa og greina atvik sem verða á sjó til að tryggja öryggi sjómanna, draga úr hættum og læra af mistökum.
Fyrrum skipstjórnarmenn Hugins lögðu sig fram við að vinna með lögreglu og rannsóknarnefnd samgönguslysa við að greina atvikið.
Fram kom í nýlegri fréttatilkynningu VSV að útgerðin hafi gert frumrannsókn á atvikinu og komist að ákveðnum niðurstöðum. Í einni af frétt framkvæmdarstjóra um málið hafði hann þó sagt að hann ætlaði sér hvorki að vera rannsakandi né dómari í málinu, hann hefur þó tekið að sér bæði hlutverkin.
Í stað þess að VSV hefði unnið með okkur að því að greina orsakir þess sem gerðist var okkur haldið frá upphafi algjörlega utan við málið frá þeim og rannsókn þess af VSV og sagt upp störfum innan sólarhrings. Hins vegar voru stjórnendur frá VSV ásamt fleirum um borð dagana eftir atvikið. Framkvæmdarstjórinn fullyrti fljótt að öryggisloki hafi verið prófaður eftir atvikið og verið í fullkomnu lagi. Líklega var það partur af hans svokölluðu frumrannsókn sem átti sér stað áður en rannsóknarnefndin kom á staðinn.
Rannsóknarnefndin kom fyrst til Vestmanneyja á mánudeginum 20.nóvember (ekki að beiðni VSV) eftir að atvikið átti sér stað en eiginleg rannsókn þeirra á búnaðinum fór ekki fram fyrr en síðar.
Á𝐛𝐲𝐫𝐠ð 𝐬𝐭𝐣ó𝐫𝐧𝐚𝐫
Það sætir furðu að á engum tímapunkti hefur stjórn Vinnslustöðvarinnar haft samband við skipstjórnarmenn til að fá upplýsingar um þeirra hlið mála.
Fyrir sjórétti var lögð fram “atvikaskýrsla” frá skrifstofu VSV um hvað átti að hafa gerst þegar ankerið féll. Margt í þeirri skýrslu var hrakið í sjóprófum enda hluti hennar ósannindi. Fram kom svo í sjóprófum að textann í skýrslunni hafði mannauðsstjórinn ritað.
Eðlilegt hefði verið að stjórn VSV hefði kynnt sér allar hliðar málsins en stjórnir fyrirtækja hafa rétt og skyldu til að fylgjast með störfum framkvæmdarstjóra og samþykki stjórnar þarf í óvenjulegum eða stórfelldum málefnum. Stjórnin ber því einnig ábyrgð á því hvernig á þessu máli hefur verið tekið, það unnið og í hvaða farveg það hefur farið.
𝐅𝐫𝐚𝐦𝐤𝐨𝐦𝐚 𝐬𝐭ó𝐫𝐬 𝐟𝐲𝐫𝐢𝐫𝐭æ𝐤𝐢𝐬 í 𝐛æ𝐣𝐚𝐫𝐟é𝐥𝐚𝐠𝐢𝐧𝐮 𝐨𝐤𝐤𝐚𝐫
Það eru mikil vonbrigði að verða vitni að og finna það hvernig stjórnendur og eigendur í stóru fyrirtæki með djúpar rætur í okkar góða samfélagi hafa komið fram í kjölfar þessa atviks. Það er sárt að sjá hvernig mannauður fyrirtækis er vanvirtur, markmiðið virðist hafa verið að brjóta upp góða og samhenta áhöfn fyrir og í kjölfarið á atviki sem var þess eðlis að taka hefði þurft utan um mannskapinn og hlúa að honum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst