Jóhanns Inga minnst í Landakirkju
Jóhann Ingi. Fjöldi ættingja, vina, félaga og samstarfsfólks var viðstatt athöfnina í Landakirkju.

Eyjamaðurinn Jóhann Ingi Árnason, fjölmiðlafræðingur og framkvæmdastjóri í St. Louis í Bandaríkjunum, var minnst við hátíðlega athöfn í Landakirkju á laugardaginn. Jóhann Ingi fæddist 30. september 1969 í Eyjum og lést 27. október í St. Louis í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru Árni Óli Ólafsson, frá Suðurgarði, stýrimaður, og kona hans Hanna Birna Jóhannsdóttir. Kona Jóhanns er Amy Elizabeth Kohnen og börn þeirra eru Aron James Jóhannsson, arkítekt, 29 ára, Alex Jóhann Jóhannsson, einkaþjálfari, 27 ára, og Hanna Elizabeth Jóhannsdóttir, nemi, 19 ára.

Séra Guðmundur Örn stýrði athöfninni og flutti minningarorð. Athöfnin var mjög hátíðleg og þátttaka fjölskyldunnar gerði hana sérstaka en um leið einlæga. Börn Jóhanns Inga og Amy minntust pabba síns mjög fallega.

Auk þeirra tóku systkini Jóhanns Inga, Ólafur og Anna Svala, þátt í athöfninni og móðursystir þeirra, Rannveig Jóhannsdóttir, sagði frá kynnum sínum af Jóhanni Inga og fjölskyldu hans.

Jóhann Ingi var borinn og barnfæddur Eyjamaður og ólst upp í Suðurgarði. Hann keppti í íþróttum og var virkur í íþróttastarfi fyrir Íþróttafélagið Þór og ÍBV. Hann byrjaði ungur í blaðaútgáfu með Tómasi Inga, æskuvini sínum.

Jóhann Ingi lærði fjölmiðlafræði í Bandaríkjunum þar sem hann kynntist eiginkonunni árið 1992. Þau fluttu til Íslands að loknu námi og bjuggu fyrst í Reykjavík þar sem Jóhann ritstýrði meðal annars Skinfaxa og skrifaði fyrir Íþróttablaðið.

Árið 2000 fluttu þau til Eyja og starfaði Jóhann meðal annars sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV. Hann hellti sér síðan út í blaðaútgáfu og gaf út blaðið Vaktina en Amy Elizabeth kenndi við Barnaskólann.

Árið 2007 rann Vaktin saman við Eyjafréttir þar sem hann starfaði um hríð. Í framhaldi af því flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna. Þar fór Jóhann í MBA-nám og tók svo við stöðu framkvæmdastjóra SLYSA (St. Louis Youth Soccer Association) sem hann starfaði hjá til síðasta dags.

Það var í lok mars á þessu ári sem Jóhann Ingi greindist með krabbamein í höfði og það mein lagði hann að velli á sjö mánuðum.

Á heimaslóðum fjölskyldunnar í Bandaríkjunum var Jóhanns Inga minnst með veglegri athöfn þar sem komu saman fjölskylda, vinir, samstarfsmenn og fjöldi einstaklinga sem Jóhann hafði unnið með undanfarin ár í þágu fótboltans í Missouri.

Fjölmennt var í Landakirkju þar sem saman komu fjölskylda, æskuvinir og samstarfsfólk hans í gegnum árin.

Börn Hönnu Birnu og Árna Óla:

  1. Ólafur Árnason, sálfræðingur, f. 18. október 1966 í Reykjavík. Kona hans er Guðrún Möller.
  2. Jóhann Ingi Árnason, fjölmiðlafræðingur, framkvæmdastjóri í St. Louis í Bandaríkjunum, f. 30. september 1969 í Eyjum. Kona hans er Amy Elisabeth Kohnen.
  3. Anna Svala Árnadóttir, dans- og jógakennari á olíuborpalli frá Noregi, f. 19. apríl 1971 í Eyjum. Barnsfaðir hennar er Arnar Hjartarson. Sambúðarmaður hennar er Anders Lerøy.

Þau Amy giftu sig 1995 og eignuðust þrjú börn.

Kona Jóhanns er Amy Elizabeth Kohnen, f. 5. febrúar 1973.
Börn þeirra:

  1. Aron James Jóhannsson, f. 27. maí 1996 í Bandaríkjunum.
  2. Alex Jóhann Jóhannsson, f. 12. október 1998 í Reykjavík.
  3. Hanna Elizabeth Jóhannsdóttir, f. 13. apríl 2006 í Reykjavík.

 

Nýjustu fréttir

„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.