Fyrst á dagskrá á laugardaginn var ferð upp á Heimaklett með Svabba og Pétri Steingríms og fóru tæplega fimmtíu manns með í förina. Dorgveiðikeppni SJÓVE var haldin og róið var í tæpar fjórar klukkustundir á planinu við Brothers Brewery til styrktar minningarsjóði Gunnars Karls.
Þeir sem áttu leið fram hjá HS veitum tóku eflaust eftir þeim Aroni Hrafnssyni og Óliver Friðrikssyni. Vinirnir voru búnir að koma upp bás og seldu þar glæsilegar teiknaðar myndir fyrir lítinn aur.
Landsbankinn hélt upp á daginn sinn með hefðbundnu sniði. Gestir gæddu sér á grilluðum pylsum og börnin sýndu listir sínar í hoppukastalanum og æfðu sig fyrir Skólahreysti í hreystibrautinni sem búið var að stilla upp.
Þá var vel mætt í garðinn hjá Helgu og Arnóri þar sem fólk lét fara vel um sig og boðið var upp á tónlistarflutninga, kaffi og kleinur.
Ribsafari fór í sérstakar ferðir með bátnum Teista. Farið var austur fyrir hraun, Nýja hraunið skoðað og sagðar sögur af gosinu og áhrifum þess á Vestmannaeyjar og íbúa þeirra. Geir Jón Þórisson var leiðsögumaður og lét m.a. reyna á raddböndin í Klettshelli til að leyfa gestum að heyra hljómburðinn þar sem þykir með ágætum.
Silja Elsabet Brynjarsdóttir og Helga Bryndís Magnúsdóttir héldu tónleikana „Schumann og Oddgeir” í Eldheimum og mikið fjör var á Skipasandi fram á rauða nótt þar sem fjöldi tónlistarmanna steig á svið.
Ljósmyndir eftir Adda í London og blaðamenn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst