Bandaríkjamaðurinn Keith Wheeler er þekktur fyrir að rogast með viðarkross á herðum sér um allan heim. Á 39 árum hefur hann gengið lengd miðbaugsins og lengra en það. Hann var staddur í Eyjum í dag og tók hring um miðbæinn með krossinn í eftirdragi sem vakti mikla athygli vegfarenda.
Hann segist ganga með hjálp frá Guði og að krossinn sé tákn vonar og friðar. Keith var hinn hressasti þegar blaðamaður hafði upp á honum á miðbæjarröltinu.
Fór með krossinn upp Kilimanjaro
„Fyrsta skiptið sem ég kom til Íslands var árið 2000 og ég mætti óvænt á sama tíma og þegar þið voruð að halda upp á 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Ég hafði enga hugmynd um það og mætti einmitt hingað bara þremur dögum fyrir” segir Keith sem hafði gaman að því.
Krossinn er með hjól á endanum sem gerir flutning hans eitthvað léttari en hann vegur allt að 50 kílógrömm. Þá velur Keith ekki einföldustu gönguleiðirnar en hann hefur meðal annars dregið krossinn með sér í gegnum Amazon regnskóginn og upp fjallið Kilimanjaro í Tansaníu sem er hátt í 6 þúsund metrar að hæð.
Næstum étinn af ljóni og meðlimir ISIS migið á hann
Hinn 64 ára Keith hefur lent í hinum ýmsu hlutum á ferðalagi sínu og krossins um heiminn og er meðfylgjandi eftirtalning kappans ekki tæmandi að hans sögn.
„Ég hef lent í fangelsi í yfir fjörutíu skipti og krossinn í einhver fimmtíu skipti. Ég hef verið barinn og skilinn eftir til að deyja tvisvar. Í síðara skiptið var ég meðvitundarlaus í þrjár vikur. Það hefur mörgum sinnum verið keyrt á mig og ég hef brotið annan fótlegginn á 21 stað. Ég hef þurft að fara í þrettán skurðaðgerðir á þeim fótlegg og fjórar á hinum. Þekkiru enska orðið rasshaus (e. butthead)? Ég er alvöru rasshaus. Það þurfti að nota húð úr rassinum á mér og græða það hér í ennið.
Ég hef verið laminn og byssum verið beint að mér. Ég hef aðallega lent í vandræðum í Bandaríkjunum og krossinn hefur verið boðinn velkominn á mun fleiri bari og næturklúbba heldur en í kirkjur.
Ég hef verið eltur af fílum, nashyrningum, flóðhestum, næstum verið étinn af ljóni og tvisvar næstum því étinn af krókódílum. Þetta ör er frá því að snákur drap mig næstum því og þetta frá því að könguló í Amazon varð mér næstum að bana. Ég segi alltaf fólki að ég hafi einu sinni verið myndarlegur en líkaminn minn hefur gengið í gegnum svo margt í gegnum tíðina.
Það að Jesús sé með mér í þessari göngu minni er eina útskýringin fyrir að ég sé á lífi í dag. Ég hef verið með byssur upp í munninum á mér, upp nasirnar og inn í eyrun. Þá hafa meðlimir ISIS líka nánast afhöfðað mig og skipst á að míga á mig.”
Keith segist ekki ætla að hætta ferðalagi sínu neitt bráðlega. „Ekki fyrr en hjartað í mér hættir að slá og ég tek minn síðasta andardrátt. Ef svo kemur til að ég geti ekki gengið einhvern tímann þá fæ ég mér bara hjólastól, eins og passar svo vel við kenninafnið mitt, og rúlla áfram fyrir ykkur,” segir hann að síðustu og heldur áfram göngu sinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst