„Ég hef verið barinn og skilinn eftir til að deyja tvisvar”

Bandaríkjamaðurinn Keith Wheeler er þekktur fyrir að rogast með viðarkross á herðum sér um allan heim. Á 39 árum hefur hann gengið lengd miðbaugsins og lengra en það. Hann var staddur í Eyjum í dag og tók hring um miðbæinn með krossinn í eftirdragi sem vakti mikla athygli vegfarenda.

Hann segist ganga með hjálp frá Guði og að krossinn sé tákn vonar og friðar. Keith var hinn hressasti þegar blaðamaður hafði upp á honum á miðbæjarröltinu.

Fór með krossinn upp Kilimanjaro

„Fyrsta skiptið sem ég kom til Íslands var árið 2000 og ég mætti óvænt á sama tíma og þegar þið voruð að halda upp á 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Ég hafði enga hugmynd um það og mætti einmitt hingað bara þremur dögum fyrir” segir Keith sem hafði gaman að því.

Krossinn er með hjól á endanum sem gerir flutning hans eitthvað léttari en hann vegur allt að 50 kílógrömm. Þá velur Keith ekki einföldustu gönguleiðirnar en hann hefur meðal annars dregið krossinn með sér í gegnum Amazon regnskóginn og upp fjallið Kilimanjaro í Tansaníu sem er hátt í 6 þúsund metrar að hæð.

Næstum étinn af ljóni og meðlimir ISIS migið á hann

Hinn 64 ára Keith hefur lent í hinum ýmsu hlutum á ferðalagi sínu og krossins um heiminn og er meðfylgjandi eftirtalning kappans ekki tæmandi að hans sögn.

„Ég hef lent í fangelsi í yfir fjörutíu skipti og krossinn í einhver fimmtíu skipti. Ég hef verið barinn og skilinn eftir til að deyja tvisvar. Í síðara skiptið var ég meðvitundarlaus í þrjár vikur. Það hefur mörgum sinnum verið keyrt á mig og ég hef brotið annan fótlegginn á 21 stað. Ég hef þurft að fara í þrettán skurðaðgerðir á þeim fótlegg og fjórar á hinum. Þekkiru enska orðið rasshaus (e. butthead)? Ég er alvöru rasshaus. Það þurfti að nota húð úr rassinum á mér og græða það hér í ennið.

Ég hef verið laminn og byssum verið beint að mér. Ég hef aðallega lent í vandræðum í Bandaríkjunum og krossinn hefur verið boðinn velkominn á mun fleiri bari og næturklúbba heldur en í kirkjur.

Ég hef verið eltur af fílum, nashyrningum, flóðhestum, næstum verið étinn af ljóni og tvisvar næstum því étinn af krókódílum. Þetta ör er frá því að snákur drap mig næstum því og þetta frá því að könguló í Amazon varð mér næstum að bana. Ég segi alltaf fólki að ég hafi einu sinni verið myndarlegur en líkaminn minn hefur gengið í gegnum svo margt í gegnum tíðina.

Það að Jesús sé með mér í þessari göngu minni er eina útskýringin fyrir að ég sé á lífi í dag. Ég hef verið með byssur upp í munninum á mér, upp nasirnar og inn í eyrun. Þá hafa meðlimir ISIS líka nánast afhöfðað mig og skipst á að míga á mig.”

Keith segist ekki ætla að hætta ferðalagi sínu neitt bráðlega. „Ekki fyrr en hjartað í mér hættir að slá og ég tek minn síðasta andardrátt. Ef svo kemur til að ég geti ekki gengið einhvern tímann þá fæ ég mér bara hjólastól, eins og passar svo vel við kenninafnið mitt, og rúlla áfram fyrir ykkur,” segir hann að síðustu og heldur áfram göngu sinni.

Nýjustu fréttir

Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.