Ég er vanur því að hlutirnir gangi í kringum mig, en þegar ég settist á þing vorið 2013 fannst mér allir hlutir ganga hægt fyrir sig. Smátt og smátt lærðist taktur þingsins og nú þegar ég lít til baka er ánægjulegt að hafa verið þátttakandi í mörgum góðum verkum. Ánægjulegast er að sjá hvernig raunverulegur ávinningur hefur verið í aukinni velferð og bættum kjörum fólks.
Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn 2013 hefur ríkissjóður skilað afgangi sem nýttur hefur verið til að greiða niður lán ríkisins um hundruð milljarða með samsvarandi lækkun vaxtagreiðsla ríkissjóðs. Lægstu laun voru 191.000 kr. á mánuði 2013 en verða 300.000 kr. í maí 2018, en 6 mánuðum fyrr eða um næstu áramót verða lægstu bætur einstaklings í hópi eldri borgara 300.000 kr. eins og kröfur þeirra voru. Þá kemur fram að nærri helmingur ríkisstarfsmanna eða 43% þeirra eru með 800.000 kr. í laun á mánuði eða meira og þar af 13% með yfir eina milljón á mánuði eða meira. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa aukist og nú er svo komið að í fyrsta skipti er staðfest að verðlag lækkar á vörum til neytenda. Afnám tolla og vörugjalda á verðlag hefur að mestu skilað sér til neytenda samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ sem nýlega var birt.
Það er í raun ótrúleg staða sem birtist fólki núna þegar við rifjum hana upp til að minna okkur á hvað staða heimilanna hefur batnað og við finnum það öll á eigin skinni. Vörugjöld voru afnumin 2015 og lækkuðu tekjur ríkissjóðs um 6.5 milljarða. Tollar á öllum vörum öðrum en búvörum voru afnumdir í tveimur áföngum áramótin 2016 og 2017 og var áætlað að tekjur ríkisjóð lækkuðu um 6 milljarða króna en vegna aukinna ráðstöfunartekna heimilanna með tilheyrandi útgjaldaaukningu lækkuðu tekur ríkissjóð óverulega. Þá var hærra þrep virðisaukaskatts lækkað 2015 úr 25.5% í 24% og er vaskurinn þá sá lægst í okkar helstu samanburðarlöndum. Neðra þrep skattsins hækkaði á sama tíma úr 7 í 11%.
Þá var neðra þrep tekjuskatts einstaklinga lækkað og milli þrepið afnumið. Við getum haldið áfram að telja niður, stimpilgjöld af fyrstu íbúðakaupum felld niður og tekið upp skattleysi séreignasparnaðar vegna íbúðakaupa sem nýta má til að greiða inn á höfuðstól verðtryggðra lána eða inn á afborganir óverðtryggðra lána.
Þá hafa vextir á lánum til íbúðakaupa lækkað frá árinu 2013 úr 5% í það sem best gerist hjá lífeyrissjóðunum 2.8% og verðbólgan hefur verið innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands allt þetta tímabil og komið böndum hækkun verðtryggingar.
Tryggingagjaldið hefur lækkað úr 7,69% í 6,85% og við sjálfstæðismenn viljum áfram lækka gjaldið sem þó stendur undir mikilvægum velferðarpóstum í samfélaginu eins og fæðingarorlofi.
Þá hefur frítekjumark fjármagnstekna hækkað, frítekjumark húsaleigutekna hækkað (aðeins greiddur skattur af 50% í stað 70% tekna), Eignarskattar lagðir niður sem var óréttlátur skattur sem fyrst og fremst kom niður á eldra fólki og þá var skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa tengdum nýsköpun felldur niður.
Frá vorinu 2013 geng ég og við þjóðin öll öðru sinni til ótímabærra kosninga. Þær leggjast vel í mig vegna þess að þær snúast um að halda áfram á þeirri braut sem ég fór stuttlega yfir í þessari grein og er grunnurinn að þeirri auknu velferð sem við búum við í landinu.
Valið í kosningunum 28. október nk. snýr um að viðhalda þeim stöðugleika sem er í landinu, treysta þá kaupmáttaraukningu og hagvöxt sem við búum við, eða skattahækkanir og innistæðulaus loforð vinstri flokkananna sem standast ekki skoðun.
Ásmundur Friðriksson, alþingismaður
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst