Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók fjóra karlmenn sem grunaðir eru um að hafa kveikt í gömlu Fiskiðjunni í nótt. Um er að ræða fjóra karlmenn um tvítugt. Skýrsla verður tekin af þeim síðar í dag.
Tilkynning um að eldur væri laus á annarri hæð í gamla frystihúsinu barst slökkviliði um kl. 3:30 í nótt. Slökkviliðsmenn voru komnir á staðinn skömmu síðar og slökktu eldinn. Talsverður reykur myndaðist í húsnæðinu og var slökkviliðið um klukkustund á vettvangi við að slökkvistörf og reykræstingu.
Að sögn lögreglu hefur engin starfsemi verið í húsnæðinu í áraraðir. Ungmenni hafa hinsvegar fengið að nota húsnæðið, m.a. til hljómsveitaræfinga. Lögregla segir að um óverulegt tjón hafi verið að ræða.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst