Minnibolti 11 ára og yngri voru að keppa í Garðabæ um helgina. Voru spilaðir 3 leikir á laugardag og 1 snemma á sunnudag svo allir leikmenn og þjálfari myndu ná leik ÍBV og Keflavíkur í meistaraflokknum í eyjum kl.15. Í fyrsta leiknum vantaði okkur 3 leikmenn og þar af voru 2 byrjunarliðsmenn og mjög stór partur í síðasta móti en þetta eru þeir Ársæll, Hafsteinn “varnarjaxl” og Valli(164cm).Spiluðum við heimalið Stjörnunnar en staðan í hálfleik var 34-22 fyrir heimamenn. Komu okkar peyjar sterkir til seinni hálfleiks og náðu að komast yfir 40-43 í byrjun 4.leikhluta en Stjörnumenn náðu að innbyrða sigur á endasprettinum 52-49. Ef allir okkar sterkustu leikmenn hefðu spilað þennan leik þá hefði aldrei verið spurning hvorum megin sigurinn hefði endað! Aron og Siggi báru af og vantaði okkur varnarleikinn í þessum leik en það kemur bara næst og við vinnum Stjörnuna næst! Stigaskor: Aron 20, Siggi 11, Geir 8, Devon 6, Kristberg 2, Tindur 2.
Annar leikur mótsins var á móti Grindavík. Byrjuðu Grindvíkingar líkt og i fyrra að spila svæðisvörn með einn dreng undir körfunni og jafnvel með 2 leikmenn að dekka Aron V. en fyrir þá sem ekki vita þá er bara leyfð maður á mann vörn í minniboltanum og er svona vörn kolólögleg. Ætla ekki að fara nánar út í þetta en þetta var jafn og spennandi leikur sem endaði að við unnum 45-41 en staðan var 45-37 þegar 1 mín var eftir og hefði sigurinn í raun getað orðið aðeins meiri en raun var vitni. Devon stóð sig mjög vel í þessum leik og þá sérstaklega í 1.leikhluta og Aron hélt okkur gangandi í síðari hálfleik þrátt fyrir að brotið var á honum í gríð og erg en mjög sjaldan var dæmt á Grindvíkingana sem voru að dekka hann. Ársæll bættist í hópinn í þessum leik og munaði um það. Stigaskor: Aron 19, Devon 10, Siggi 8, Geir 6, Kristberg 2.
Síðasti leikur dagsins og jafnframt þriðji leikurinn þennan dag var á móti Íslandsmeisturum Haukum. Byrjuðu Haukar leikinn mun betur og voru yfir 4-14 eftir fyrsta og 8-18 var staðan í hálfleik og var eins og okkar menn væru búnir á því og vantaði alla baráttu. Var það nú fljótt að breytast og eftir þriðja leikhlutann þar sem Geir skoraði 6 stig og Aron 10 var staðan allt í einu orðin 24-26 fyrir Hauka og spennan í hámarki. Lokaleikhlutinn var mjög jafn og skiptust liðin á að hafa forystu. Þegar lítið var eftir í stöðunni 36-37 tókum við leikhlé og vissu allir í húsinu að Aron V myndi taka skotið. Teiknuðum upp smá kerfi sem endaði með því að Aron fór framhjá 3 varnarmönnum Hauka og skoraði glæsilega körfu þegar 14 sekúndur voru eftir af leiknum og var mikið fagnað í okkar herbúðum hvort sem var á bekknum eða uppí stúku. Haukar fengu tækifæri til að vinna en við spiluðum rosa vörn í lokin og náðu þeir ekki einu sinni að skjóta á körfuna og því sigur 38-37. Stigaskor: Aron 25, Geir 8, Siggi 3, Kristberg 2.
Eini leikurinn okkar á sunnudeginum og einnig síðasti leikur okkar á mótinu var á móti sterku liði KR! Kom Hafsteinn inn í liðið þar sem handboltinn kláraði sitt á laugardag. Byrjuðu okkar peyjar rosalega vel og voru yfir 16-9 eftir 1. leikhlutann. En það fór allt úrskeiðis hjá okkur í öðrum leikhluta en í hálfleik var staðan orðin 22-32 fyrir KR! Var þetta nánast vendipunktur leiksins þar sem okkar leikmenn náðu sér alls ekki á strik eftir þetta. Endaði leikurinn 41-56 og var varnarleikurinn mjög slakur í þessum leik og vantaði smá kjark og þor á móti þessum KR-ingum og að spila betri vörn en KR vildu þennan sigur greinilega meira en við að þessu sinni! Siggi var skástur í okkar liði en hann var að hitta mjög vel í lokin en það var bara því miður of seint fyrir okkur. Aron náði sér ekki á strik og komst lítt áleiðis í leiknum og spiluðu KR-ingar mjög góða vörn á kappann. Hefðu fleiri þurft að stígu upp í þessum leik í sóknarleiknum. Stigaskor: Aron 13, Siggi 12, Geir 6, Kristberg 4, Haffi 4, Devon 2.
* Voru allir til fyrirmyndar innan sem utan vallar. Annars stóðu allir sig þokkalega og að vinna 2 leiki í A RIÐLI er ekkert annað en mjög sterkt. Við erum betri en þetta finnst mér og gætum endað á toppnum í lok tímabilsins ef við bætum ýmsa hluti í okkar leik og verðum með fullskipað lið framvegis. Strákarnir þrælskemmtilegir, áhugsamir og duglegir og vonandi verður það áfram. Höfum núna rúma 3 mánuði fram að næsta móti og bara um að gera að æfa vel og æfa sig einnig utan æfingatíma hvort sem það er heima hjá sér eða í skólanum. No pain, no gain.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst