Ekki mátti tæpara standa þegar þrír af skipsverjum Hugins VE urðu fyrir eitrun þegar þeir unnu við að skipta um loka í dælurými skipsins sl. miðvikudag. Tveir mannanna voru að losa lokann við mjög erfiðar aðstæður niður í kili skipsins og þriðji maðurinn var þeim til aðstoðar á palli fyrir ofan þegar gas komst inn í rýmið með þeim afleiðingum að mennirnir liðu útaf vegna eitrunarinnar. Tveir þeirra komust fljótt til meðvitundar aftur en sá þriðji sem varð verst úti var fluttur með sjúkraflugvél á Landspítalann í Reykjavík. Mennirnir eru á góðum batavegi og talið er að snarræði og hárrétt viðbrögð skipsfélaga þeirra hafi orðið til þess að þeir björguðust og urðu ekki fyrir heilsutjóni.