Það má segja að tímabilið hafi að miklu leyti endurspeglast í leik ÍBV gegn Stjörnunni í kvöld. Eyjamenn léku ágætlega á köflum en náðu einhvernveginn ekki að hrista Garðbæinga almennilega af sér. ÍBV náði mest fjögurra marka forystu og var tveimur mörkum yfir þegar tvær og hálf mínúta var til leiksloka. En þá virtist allt fara úrskeiðis. Lokamínútan var svo farsakennd þar sem ÍBV missti boltann, Stjarnan skipti ólöglega og því fékk ÍBV aftur tækifæri til að skora sigurmarkið. En þess í stað misstu Eyjamenn aftur boltann og máttu þakka fyrir að Stjarnan hafði ekki tíma til að skora sigurmarkið. Lokatölur urðu 25:25 en staðan í hálfleik var 13:10.