Karlalið ÍBV lagði Gróttu að velli í kvöld í Eyjum þegar liðin áttust við í 1. deildinni en lokatölur urðu 32:23. Eyjamenn hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu í Íslandsmótinu og virðist liðið stefna hraðbyri á sæti í úrvalsdeild. ÍBV er í efsta sæti með tveggja stiga forystu á Víking þegar aðeins eru þrjár umferðir eftir. En af þessum þremur umferðum sem eftir eru, mætast þrjú efstu liðin innbyrðis.