Þrír bátar eru gerðir út á net í Vestmannaeyjum og nú er ekki verið að eltast við tonnin. Það er verðmætið sem skiptir máli og er allt kapp lagt á að koma með sem best hráefni að landi. Þegar spáir brælu er dregið í og legið með netin í landi frekar en að draga tveggja nátta. Mjög er vandað til alls frágangs á fiski og netafjöldi í sjó miðast við að hægt sé að draga allar trossurnar á einum degi. Netavertíðin hefur gengið vel, nóg er af fiski og er stór þorskur áberandi í aflanum.