ÍBV kom heldur betur á óvart í kvöld með stórsigri sínum á �?ór/KA. Lokatölur urðu 5:0 en ÍBV var yfir í hálfleik 2:0. Nadia Lawrence kom ÍBV yfir þegar aðeins 50 sekúndur voru liðnar af leiknum en hún fylgdi eftir skoti Kristínar Ernu Sigurlásdóttur. Shaneka Gordon kom ÍBV svo í 2:0 með marki í lok fyrri hálfleiks en Shaneka hafði áður fengið tvö úrvalsfæri til að skora. Vesna Elísa Smiljkovic skoraði þriðja markið á 62. mínútu en í blálokin komu tvö mörk. Fyrra markið var sjálfsmark norðanstúlkna en fyrirliði ÍBV, Kristín Erna innsiglaði svo glæsilegan sigur á lokaandartökum leiksins.
Sigurinn er sannarlega óvæntur enda var �?ór/KA í harðri baráttu um annað sætið, var fyrir leikinn í því þriðja með 21 stig en á sama tíma var ÍBV í sjöunda sæti með 12 stig. Með sigrinum stígur ÍBV stórt skref í að tryggja sæti sitt í deildinni en ÍBV er nú átta stigum á undan Aftureldingu, sem er í fallsæti. Enn eru þó sex umferðir eftir og ljóst að ÍBV þarf enn að bæta í stigafjöldann en liðið á eftir að leika gegn öllum þremur neðstu liðunum og því er það í hendi Eyjakvenna að halda sæti sínu í deildinni.