Kristín Jóhannsdóttir forstöðumaður Eldheima kom á fund bæjarráðs í vikunnni og fór yfir rekstur safnsins frá því það var opnað í maí á þess ári. Í máli Kristínar kom m.a. fram að rekstur safnsins hafi gengið afar vel. Frá opnun safnsins í byrjun júní hafa um 23.000 borgandi gestir heimsótt safnið og viðtökur hafa verið afar jákvæðar. Áætlanir bæjarráðs gerðu ráð fyrir að það þyrfti um 16.000 gesti til að standa undir rekstri safnsins. Sérstaka ánægju vekur að sýningunni er jafnvel fagnað af heimamönnum og gestum. Kristín benti einnig á að Eldheimar væru að fá afar jákvæðar umsagnir á Tripadvisor og víðar á vettvangi faglegrar umfjöllunar um söfn og ferðaþjónustu.
Fram kom einnig að nú væri unnið að því að setja upp sýningu tengda gosinu í Surtsey. Sú sýning er stofnsett og verður rekin í samstarfi við Umhverfisstofnun. Hönnuður sýningarinnar er Axel Hallkell Jóhannesson sem einnig er hönnuður Eldheimasýningarinnar um Heimaeyjagosið. Fyrirhugað er að opna Surtseyjahlutann 14. nóvember nk. á afmælisdegi Surtseyjar en þá eru liðin 51 ár frá því að hún varð til í neðansjávargosi.
Bæjarráð fagnar góðum rekstrarárangri og framúrskarandi viðtökum heimamanna og gesta.