Í gær og í dag hefur verið nóg um að vera hjá u-19 ára landsliðinu í handbolta. Í gær spiluðu strákarnir í 16 liða úrslitum þar sem þeir sigruðu lið Suður Kóreu 34-28. Hákon Daði skoraði þar fjögur af mörkum Íslands.
Nú rétt í þessu var að ljúka leik Íslands og Brasilíu í 8-liða úrslitum þar sem Ísland hafði betur 32-27. Ísland var með yfirhöndina allan leikinn en í síðari hálfleik var staðan 21-14 þegar Brasilíumenn hrukku í gang og skoruðu níu mörk gegn tveimur mörkum Íslands og jöfnuðu leikinn 23-23. Strákarnir gáfu þá aftur í og sigruðu að lokum 32-27. Hákon Daði Styrmisson gerði þrjú mörk í leiknum en Nökkvi Dan Elliðason kom ekki við sögu.
Strákarnir leika því til undanúrslita á mótinu og er árangur liðsins stórglæsilegur en í dag ræðst hverjir mótherjar liðsins verða.