Ég varð 17 ára á hátíð sem hét Noko eyjar en þá hittust forsvarsmenn menntaskólanemendafélaga um allt land á Skógum og ímynduðu sér að þeir væru á stað framkvæmdarinnar: Noko eyjum.
Sólbekkjabrúnn með hettustrípur hlustaði ég á einn og annan fyrirlesturinn og er tvennt sem ég man alltaf eftir. Það fyrra er þegar kona blés okkur í brjóst hvað íslenskan væri mikilvæg og að við ættum að vera smart og forðast enskuslettur. Henni var ég hjartanlega sammála en þú kannski fattar það, lesandi góður, að smart er einmitt enskusletta. Þessu var auðvitað skotið á konugreyið sem tók því með jafnaðargeði. Eða var frekar kúl á því bara.
Hitt var úr öðrum fyrirlestri. Þá vorum við hvött til að skrifa niður markmið á hverju ári og reyna svo eftir besta megni að ná þessum markmiðum. Þetta hef ég gert í ófá ár og er alltaf gaman í kringum áramót að skoða hvað gekk upp og hvað ekki. Það gerist nefnilega oft að þegar maður eltist við eitthvað markmið leiðir það mann á kannski allt annan stað. Maður fattaði jafnvel á leiðinni að markmiðið sem maður setti sér var kannski ekki eitthvað sem mann langaði að gera í raun og veru en samt gerði maður eitthvað geggjað af því að maður fór af stað.
Einmitt. Enn einn pistillinn um það að setja sér markmið. Fara í ræktina, spara, borða hollar, hringja oftar í foreldra sína, drekka minna og læra að gera sushi – nú eða wellington!
Í fyrra setti ég mér það markmið að skafa af mér 10 kg. Það ætti ekki að vera svo flókið. Það eru 7 tindar hérna eða fleiri, líkamsræktarstöðvar, klassa sundlaug, alls konar tímar í hinu og þessu (skil ekki alveg þetta sjósund samt), ég er í fótboltahóp á þriðjudögum og svo á ég reiðhjól. Í byrjun desember var ég aðeins 15 kg frá því að ná þessu markmiði. En auðvitað var þetta allt COVID að kenna. Það var alveg ótrúlegt að alltaf þegar ég ætlaði að hafa mig af stað var ræktinni lokað. Ég hafði m.a.s. keypt mér kort í ræktina í fyrsta sinn í einhver ár en veit sannast sagna ekki einu sinni hvar gengið er inn í ræktina. Það kemur. Ég á 6 vikur eftir af árskortinu mínu…
Það sem er líka skemmtilegt við þetta er það að setja sér markmið. Hugsa með sér hvað mann langar að gera og punkta það hjá sér í dagbók. Þegar þetta er skrifað hef ég sett mér 87 markmið fyrir árið 2021. Ég stórefa að ég eigi eftir að ná þeim öllum en ég veit að með því að skrifa þetta niður og skoða listann oftar tekst mér betur að nýta tíma minn rétt.
Ég skora á þig að prófa þetta. Markmiðin mega vera svo fáránlega einföld. Stundum bara eitthvað sem hægt er að klára á 5 mínútum. Stundum eitthvað sem er í gangi yfir allt árið. Bara hvað sem er.
Eitt markmiðanna sem ég setti mér fyrir 2021 var að byrja aftur að skrifa pistla. Ég ætla að haka við það núna og skoða hvaða markmið ég ætla að ná næst. Gúggla wellington? Negla Sweet Child O´Mine stefið?
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst