Ég var kominn í skóna á leiðinni í búðina þar sem það vantaði tvo nauðsynlega hluti á mitt heimili: Bleiur og maísbaunir – svo hægt væri að poppa.
Athugið að þessir tveir hlutir haldast ekki í hendur nema að því leyti að þá vantaði þennan daginn. Þegar ég lokaði svo á eftir mér og var ríflega hálfnaður niður tröppurnar opnaði Leifa mín hurðina og kallaði á mig að það vantaði líka mjólk. Fjúkk. Hún rétt náði að segja það áður en ég var kominn í bílinn. Það verður jú að vera til mjólk.
Frá því ég man eftir mér hef ég verið með margt á minni könnu. Ég hef löngum haft gaman að félagsmálum, vann alltaf með námi og leiðist ekki að hitta fólk. Það er nú líka svo að ég er afskaplega minnugur. Eitt sinn var skólabróðir minn úr menntaskóla beðinn um að skrifa pistil um bestu ár lífsins, eins og margir kalla menntaskólaárin, og hringdi hann í mig svo ég gæti sagt honum skemmtilegar sögur af honum sjálfum. Ég hlyti að muna þetta enn betur en hann. Þetta var 10 árum eftir útskrift og rifjaði ég upp eitt og annað.
Ég vann í búð í 10. bekk og til að vigta eitt og annað þurfti að slá inn númer. Ég man að epli eru nr 1, sítrónur nr 4, bananar 11, sveppir 37 o.s.frv. Ég heilsa líka sveitunga mínum að austan gjarnan: „Blessaður! Hvað segir 140656-5659 gott í dag?“ Ég vann sumsé á bensínstöð á menntaskólaárunum og er umræddur maður pípari sem setti öll sín viðskipti á bensínstöðinni í reikning. Þegar ég var enn yngri var gæðastund hjá okkur mömmu að horfa á Melrose Place (ekki spyrja af hverju) og man ég vel eftir þeim Kimbirly, Amöndu og Michael.
Ég reyni alltaf að vera skipulagður og skrifa hjá mér það sem ég þarf að gera. Framkvæmdabókin er vopn sem ég nota mikið og í hana hefur allur fjárinn farið síðasta áratuginn eða svo. Mér gengur betur að koma hlutum í verk ef ég skrifa niður hvað þarf að gera og get þá haldið mörgum boltum á lofti. Þegar ég var í Kennaraháskólanum var ég í ýmsum ráðum og nefndum og vafðist eitthvað agalega fyrir mér að koma hlutum í verk einn daginn. Ég, einu sinni sem oftar, ákvað að skrifa To Do lista. Og viti menn. Það fóru heilir tveir hlutir á listann! Tveir! Ég velti þeim á milli heilahvolfa allan morguninn og kom ekki fyrir mér hvernig ég ætti að komast yfir þessi hvílíku annríki sem biðu mín en hló, einu sinni sem oftar, af vitleysunni í sjálfum mér.
En víkur sögunni að búðarferðinni. Þið munið; þessa með bleiurnar, maísbaunirnar og það sem Leifa mín bað mig um að kaupa að auki. Ég fann baunirnar og bleiurnar og gekk svo um gólf í smá stund áður en ég gafst upp, tók upp símann og hringdi í Leifu og spurði: „Hvað sagðirðu aftur að ég ætti að kaupa annað en maísbaunir og bleiur?“
Oft er sagt að eitthvað hafi verið einhvern veginn svo lengi sem elstu menn muna. Mín reynsla er nú reyndar sú að margir af okkar elstu mönnum muna jafnvel ekki neitt. En harði diskurinn minn er allavega orðinn þannig að ég man að sveppir eru númer 37 í Sparkaup, sem er ekki einu sinni lengur til, en ég á erfitt með að muna þriðja hlutinn þegar farið er í óvænta búðarferð. Og ekki er fíflið hann Michael að fara að hjálpa mér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst