Í dag býður Vestmannaeyjabær upp á frumsýningu á nýrri íslenskri kvikmynd, Eden sem kynnt er sem villt blanda af spennu og kómík. Hún segir frá parinu Lóu og Óliver sem framfleytir sér með fíkniefnasölu en þráir ekkert heitar en að elta drauma sína.
Þegar þau lenda upp á kant við undirheimaöflin ákveða þau að taka málin í sínar hendur og hefst þá barátta upp á líf og dauða.
Leikstjóri og höfundur er Bolvíkingurinn Snævar Sölvi Sölvason. Eden er önnur mynd Snævars Sölva sem ratar í kvikmyndahúsin en fyrri myndin er gamanmyndin Albatross sem kom út árið 2015. Albatross fjallaði um líf og störf golfvallarstarfsmanna í Bolungarvík og var að öllu leyti tekin upp í Bolungavík.
Með aðalhlutverk fara Telma Huld Jóhannesdóttir, sem hefur getið sér gott orð á leiksviði og í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við Illsku, Webcam og Rétti, og Hansel Eagle og Ævar Örn Jóhannsson sem fór með aðalhlutverkið í gamanmyndinni Albatross sem kom út árið 2015.
Kvikmyndatónlist samdi Magnús Jóhann Ragnarsson og lagasmíðar eru í höndum Þormóðs Eiríkssonar. Framleiðendur eru Flugbeittur Kuti og Kvikmyndafélag Íslands (Kisi) en Sena sér um dreifingu á Íslandi.
Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan. Myndin er sýnd í dag kl. 17:30 í Kviku – Menningarhúsi.
Vestmannaeyjabær býður á allar þessar sýningar í tilefni aldarafmælis kaupstaðarins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst