Ein góð vinkona mín notar svo oft orðin ,,Ég læt ekki ræna mig gleðinni“ og ég hreint út sagt elska þessi orð því þau eru mér svo góð áminning í dagsins önn um að það er ég sem stjórna mínum viðbrögðum við því sem lífið er alltaf að henda í mig, og okkur öll.
Á hverjum einasta degi mætum við verkefnum, flestum skemmtilegum, öðrum leiðinlegum en flest öll reyna þau á okkur á einhvern hátt. Sum verkefni þreyta okkur, standa jafnvel lengi yfir og okkur finnst eins og þau ætli aldrei að taka enda. En öll eiga þessi verkefni það sameiginlegt að við höfum val um það hvernig við tökumst á við þau. Við sjáum ekki alltaf strax valmöguleikana og vissulega erum við oft sett í aðstæður sem við völdum okkur svo innilega ekki en það þýðir ekki að við getum ekki valið hvernig við ætlum að tækla þau.
Ég, eins og allir, hef fengið alls konar verkefni í hausinn í þessu lífi og Guð á himnum og allir hans hirðmenn hvað mig langaði oft að taka þessi verkefni, pakka þeim saman og grýta þeim eins langt og mögulegt væri. Lengi vel valdi ég að taka þá leið að takast bara ekkert á við þessi verkefni, ýta þeim á undan mér, láta þau vera þarna á kantinum og vona að með tímanum hyrfu þau eða ég hreinlega gæti lært að lifa með þeim. Það er skemmst frá því að segja að þau hvorki hurfu né lærði ég að lifa með þeim. Þau uxu og döfnuðu, urðu svona milljón sinnum stærri en þau voru þegar þau birtust og vinnan mín með þau og í gegnum þau varð svona milljón sinnum erfiðari en ef ég hefði tekist á við þau strax.
Ég er nefnilega svo geggjað ,,heppin“ að vera með frestunaráráttu, mottóið mitt hefur hingað til verið ,,Hvers vegna að gera það í dag sem þú getur gert á morgun“ og ég hef lifað samviskusamlega samkvæmt því, með nokkrum undantekningum þó. Þegar ég skildi þarna fyrir bráðum áratug (já ég er miðaldra) þá lenti ég í stormi sem ég gat ekki frestað, gat ekki hunsað, gat ekki beðið eftir að gufaði upp og ég sá afar fljótt að ég yrði að vinna með þetta áfall ef ég hreinlega ætlaði að lifa af.
Ég hélt reyndar á tímabili að ég myndi ekki lifa þetta af, svo mikill var sársaukinn, en viti konur og menn, hér er ég, uppistandandi og meira að segja oftast glöð. En það var erfitt fyrir kvíðakonuna með frestunaráráttuna að þurfa að standa í miðjum stormi, setja sjálfa sig í annað sætið og einbeita sér að því að koma stelpunum mínum á góðan stað. Það var erfitt að kyngja kekkinum í hálsinum, þurrka stanslaust tárin og gráta svo í koddann þegar litlu konurnar mínar voru sofnaðar á kvöldin. Það var líka erfitt að viðurkenna vanmátt minn og átta mig á því að þennan slag tæki ég ekki án aðstoðar.
En ég áttaði mig líka á því að ef ég ætlaði mér að halda áfram þá yrði ég að kalla til stórskotaliðið og leita þangað sem ég fengi leiðsögn og stuðning. Fjölskylda mín og vinir mynduðu þétt og sterkt net utan um okkur mæðgur og gripu mig þegar ég gat ekki meira. Fljótlega leitaði ég til prestanna hér í Eyjum og það er einfaldlega þannig að Séra Guðmundur bjargaði lífi mínu, hann leiðbeindi mér svo fallega og hlýlega þangað sem ég þurfti að fara og eftir viðtölin við hann fór ég að standa í lappirnar og gera mér grein fyrir hvað ég þyrfti til að halda áfram.
Og áfram hélt ég og lífið hélt líka áfram að henda alls konar í mig sem ég réði svona mismundandi vel við, en samt með þau verkfæri í höndunum að ég gæti komist út úr þessum verkefnum ef ég veldi að nota verkfærin mín, stíga inn í sársaukann, vinna með hann og svo út úr honum aftur…..því eins sérstakt og það er þá hefur ekkert verkefni sem ég hef fengið verið endalaust….og það kom mér á óvart.
Nú er ég að rísa úr öskunni einu sinni enn eftir 2 ára þrotlausa vinnu við að finna sjálfa mig sem hafði týnst þarna á leiðinni. Ég þurfti að klessa fast á vegg til að átta mig á því að ég væri týnd og ég myndi ekki finna mig ein og óstudd. Aftur og enn brást netið mitt vel við og það dásamlega við það að í þetta sinn voru dætur mínar þar fremstar í flokki, búnar að klára sín erfiðu verkefni með sóma og stóðu eins og klettar við hlið móður sinnar á þessari vegferð. En eins og áður þá lærði ég eitthvað nýtt í þessari atrennu. Ég lærði nefnilega að við erum ekki tilfinningar okkar, við upplifum tilfinningar og svo eru það við sem stjórnum viðbrögðum okkar við þessum tilfinningum en það eru þessi viðbrögð sem allt veltur á.
Ég er ofsalega (vægt til orða tekið) tilfinningamikil og hef í gegnum tíðina ,,dramast“ svona í gegnum þetta, og geri vissulega enn. En ég er samt orðin meðvitaðari um að viðbrögð mín þurfa ekki alltaf að vera svona brjálæðislega ýkt eins og þau voru. Það eru fullt af aðstæðum og verkefnum sem kalla ekki endilega á að missa það gjörsamlega, slá um mig með mestu tilfinningaorðum sem ég veit og falla svo í jörðina með hendina á enni. Það er nefnilega hægt að stíga aðeins frá verkefninu, ná tökum á sér og anda sig inn í það aftur. Það er mitt markmið að ná því í 9 af 10 verkefnum sem ég fæ en ekki í 2 af 10 eins og ég næ í dag……En hei þess vegna geng ég enn til sálfræðings mánaðarlega og mun gera þar til ég tel mig ekki þurfa það lengur.
En eitt er víst, það þarf alltaf meira og meira til svo að ég láti einhvern eða eitthvað ræna mig gleðinni, ég reyni að velja mig frá svoleiðis fólki og aðstæðum því ég vil vera í glimmerinu frekar en sársaukanum. En þetta er mitt eilífðar verkefni og ég er búin að sætta mig við það.
Til lífs og til gleði
Lóa
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst