Bæjarstjóri kveikti hugmynd

Sighvatur Jónsson kvikmyndagerðarmaður segist hafa heillast af ritgerð Hrefnu Díönu um þrettándann. 

„Ég get eignað Elliða Vignissyni, fyrrverandi bæjarstjóra Vestmannaeyja, þátt í hugmyndinni að myndinni því þegar ég var að ræða við hann um heimildarmyndina Útlendingur heima – uppgjör við eldgos sem við Jóhanna Ýr Jónsdóttir gerðum árið 2013 um Heimaeyjargosið 1973 kom þrettándinn til tals,“ segir Sighvatur.

„Elliði hafði á orði hversu mikil vinna væri við þrettándagleðina og rík saga sem hvort tveggja væri ekki á allra vitorði.  Á þeim tíma var ég farinn að horfa til þess að gera heimildarmynd um þjóðhátíð okkar Eyjamanna sem við Skapti Örn Ólafsson hófumst handa við sumarið 2014. Eftir fyrstu upptökur fyrir myndina Fólkið í Dalnum ræddum við Geir Reynisson, vinur minn, saman um mögulega heimildarmynd um þrettándagleðina. Geir hefur oft talað um þrettándann í Eyjum sem risastórt útileikhús, enda koma ríflega 200 manns að hátíðinni. Ég setti mig í samband við Hrefnu Díönu og upptökur hófust á þrettándanum 2015. Á hverju ári ræddum við Geir og Hrefna Díana saman um hvaða efni við gætum bætt við á komandi þrettánda.“

Sagan kemur saman

„Nú fimm árum síðar er ótrúlega gaman að sjá söguna koma saman. Auðvitað hefur maður skoðað efnið eftir hvern einasta þrettánda en sumt ekki síðan. Eftir hvernig þrettánda gerði ég stutta kynningarstiklu með efni frá upptökum þess árs. Með árunum höfum við safnað saman mörgum viðtölum sem varðveita heimildir ásamt því sem sagan hefur orðið til fyrir framan nefið á okkur. Má þar sem dæmi nefna söguleg kynslóðaskipti hjá Grýlu og Leppalúða á síðasta þrettánda. Það er einmitt ríkur þáttur í sögu þrettándans að mörg verkefni ganga í erfðir. Í myndinni gerum við þessu góð skil. Það eru ekki allir sem átta sig á því að Grýla og jólasveinarnir hafa í notið aðstoðar fólks innan sömu fjölskyldna í áratugi,“ segir Sighvatur.

Klippingu myndarinnar er nýlokið og nú stendur eftirvinnsla hennar yfir. „Á meðan við bíðum eftir því að fá myndina úr hljóðblöndun og litvinnslu erum við að fara yfir alla grafík, svo sem skjátexta, nafnaskilti og kreditlista. Við hlökkum mikið til að frumsýna myndina föstudaginn 27. desember í Eyjabíói og í Háskólabíói,“ segir Sighvatur og bendir á að bíómiða má nálgast á söfnunarsíðu myndarinnar hjá Karolina Fund.

Nýjustu fréttir

Foreign Monkeys gefa út þriðju breiðskífu sína – „III“
Úttekt á fasteignagjöldum ársins
Mikil gróska í fimleikastarfi og mót framundan
Hlutafjáraukning Eyjaganga langt komin
Áframhaldandi hvassviðri út vikuna  
Áætlun um rýmingu Heimaeyjar eftir að Surtsey fór að gjósa
Loðnu að finna á stóru svæði
Íbúakosning samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.