Ég er fáránlega lífhrædd mannvera, hef verið svona frá því ég man eftir mér og þessu fylgdi (ok og gerir stundum enn) vandræðaleg taugaveiklun.
Ég gat gert foreldra mína brjálaða þegar ég var yngri (ok og geri líklega enn) þar sem þau máttu helst ekki hverfa úr augsýn án þess að ég tæki tryllinginn og héldi að þau væru dáin, að minnsta kosti stór slösuð. Mín vegna áttu þau mjög líklega mun minna félagslíf en þau hefðu getað átt því Ungfrú litla Lóa kærði sig lítið og illa um að þau væru að sinna öðru en henni.
Þegar ég eignaðist Kamillu versnaði ég til muna, barnið svaf um það bil 16 tíma á sólarhring og ég vakti ég að meðaltali 12 tíma til að horfa á hana sofa og athuga reglulega hvort hún andaði ekki. Þetta skánaði ekki þegar Emma fæddist og í dag vil ég meina að mitt arfa lélega svefnmynstur skrifist algerlega á þessar vökur yfir stelpunum mínum…..ekki að ég sé að kenna þeim um, alls ekki……..samt smá 😉
Þegar Covid byrjaði að herja á heiminn viðurkenni ég fúslega að ég gersamlega missti kúlið, ég varð hrikalega hrædd og þess fullviss að ALLIR sem ég elska myndu veikjast og allavega helmingur þeirra deyja. Ég gat eiginlega ekki á heillri mér tekið, fygdist með öllum fréttum, las allt sem ég gat um þetta og í dágóðan tíma talaði ég bara um Covid, alltaf með kökkinn í hálsinum og tár á hvarmi, Jón Ársæll hefði séð mörg tár á hvarmi hjá mér ef hann hefði tekið viðtal við mig. Ég var afar líklega að gera mitt nánasta fólk brjálað og já ég fékk þráhyggju fyrir þessum sjúkdómi og á timabili hélt ég að heimurinn myndi enda. Lagið ,,It‘s the end og the world as we know it“ með REM spilaðist endalaust í hausnum á mér og ég horfði yfir mig á FRIENDS því þeir þættir virka á mig sem hið besta geðlyf…..ásamt geðlyfjunum sem ég er á.
Föstudaginn 13 mars var ég síðan sett í fyrirbyggjandi sóttkví af mínum yfirmanni og þá ákvörðun studdu hjartalæknirinn minn, sálfræðingurinn minn og heimilislæknirinn, það þarf ekkert minna en þetta teymi í kringum Stelpukonuna mig. Ég mátti fara í búð en fljótlega hætti ég því þar sem ég fékk köfnunartilfinningu innan um fólk(nú dæsa dætur minar og systir yfir dramatíkinni hjá mér) og ég var alltaf alveg að fara að gráta ef einhver nálgaðist mig. Þannig að foreldrar mínir á sjötugsaldri önnuðust innkaup fyrir rúmlega 40 ára stelpuna sína svo hún gæti vafið sig inn í bómul heima hjá sér……Hver var aftur helsti áhættuhópurinn fyrir Covid? Fólk yfir 65 ára, var það ekki????
Fyrstu þrjár vikurnar voru ógeð, ég var tryllt úr hræðslu, svaf ekki, drakk bara kók og horfði á FRIENDS, ég var komin í ástand sem ég hafði ekki farið í lengi og kvíðinn og óttinn voru gersamlega búin að ná yfirhöndinni. Ég beið alla daga eftir fundinum hjá Þórólfi, Ölmu og Víði, sem ásamt Braga Valdimari og Kára Stefáns, eru og verða mínir uppáhalds Íslendingar. Ég sat fyrir framan sjónvarpið, reyndi að lesa í svipbrigði þeirra og fas og drakk í mig hvert einasta orð sem þau sögðu. Ég íhugaði alvarlega að senda þeim öllum vinabeiðni á facebook svo ég gæti líka, eins og Björn Ingi frá Viljanum, verið i samskiptum við þau eftir fundina………En ég hamdi mig.
Eftir þessar þrjá vikur fór ég að róast, fann húmorinn minn aftur og bökunargyðjuna í mér sem ég hreinlega vissi ekki að væri partur af mér. Ég bakaði bananabrauð, skonsur, skúffukökur og hvaðeina sem ég fann á netinu, fann matarlystina mína aftur og bætti mér vel upp skortinn sem ég hafði þjáðst af í þrjár vikur…….skortur er kannski full vel í lagt en svona á minn mælikvarða átlega séð var þetta allavega veruleg rýrnun. Dætur mínar héldu að ég hefði endanlega farið yfir um þar sem þær hafa ekki séð móður sína baka nema rétt fyrir afmælin þeirra og efuðust þær á tímabili um að allt væri með felldu.
8 vikum seinna fékk ég loksins grænt ljós á að fara í yndislegu vinnuna mína og geðheilsan bættist um svona milljón stig. Ég er búin að lita hárið mitt bleikt, fá mér augabrúnir og bleikar glimmer neglur. Ég er búin að fara nokkrum sinnum út að borða, fara til Reykjavíkur og er alltaf að bæta í hóp þeirra sem ég hitti og er mögulega að kafna yfir frelsinu sem ég finn fyrir. En ekki halda að ég sé búin að gleyma Covid og því að enn þurfum við að fara varlega, engar áhyggjur, ég fæ reglulega hraðan hjartslátt af tilhugsun um seinni bylgju og þarf þá að hafa mig alla við að missa ekki kúlið aftur. En ég sakna þess að knúsa fólk, ég sakna þess að fara á Brothers og drekka bjór, hitta fólk og spila gúrku, ég sakna þess að fara í Höllina á ball og taka trúnó á klósettinu. Ég leyfi mér ekki að klára hugsunina um að Þjóðhátíðin verði með öðru sniði og ég reyni að hugsa ekki um Dublin ferðina sem ég á að vera að fara í í haust með Þórunum mínum.
En allt eru þetta lúxus vandamál í því samhengi að á Íslandi tókst vel að hemja faraldurinn. Hugur minn er hjá því fólki sem missti ástvini í þessu stríði og bið ég allt gott að vaka yfir þeim sem elska og sakna. Ég á ekki nógu kraftmikil eða lýsandi orð til að tjá heilbrigðisstarfsfólkinu okkar það sem mér finnst um þau, ég bara finn ekki nógu sterk lýsingarorð til að lýsa aðdáun minni á þessu fólki, já og bara öllu okkar framlínufólki sem lagði sig í hættu alla daga til að halda samfélaginu okkar gangandi og halda fólkinu okkar á lífi……Þeirra störf verða aldrei fullþökkuð.
Nú er föstudagur, það er sól og ég er á leið í bústað með þremur af mínum uppáhalds konum þannig það er ekki yfir neinu að kvarta. Eftir allt sem gekk á í þessu Covid stríði þá er ég þakklát, enn og aftur, fyrir fólkið mitt sem fleytir mér í gegnum allt sem þetta líf bíður mér og okkur öllum upp á. Ég væri eflaust bara búin að koma mér fyrir í gluggalausu geymslunni minni með bakaðar baunir og kók ef ég hefði ekki fólkið mitt til að minna mig á að lífið er geggjað þrátt fyrir að það sé ekki alltaf bara regnbogar og einhyrningar (sem væri bei the vei sjúllað)
Til lífs og til gleði
Lóa
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst