Ég er verulega hugsi og búin að vera lengi. Ég er hluti af svokallaðri framvarðarsveit, er í framlínustarfi sem leikskólakennari, kenni yngstu nemendunum í skólakerfinu.
Ég elska að vera leikskólakennari, hef elskað það frá fyrsta degi og er bara nokkuð góð í því…..þó ég segi sjálf frá.
Nú erum við í þriðju bylgju Covid, afar hörð bylgja sem hefur leikið marga grátt, margir sýkjast, veikjast illa og því miður hafa líf tapast og er það þyngra en tárum taki. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar vinnur þrekvirki hverja einustu mínútu, hvern einasta dag og virðing mín fyrir þessu fólki er meiri en ég get nokkurn tímann tjáð.
Hömlur eru á flestum þáttum okkar daglega lífs og nýr veruleiki blasir við nánast daglega. En skólar skulu halda áfram, nánast með óskertu sniði. Kennarar mæta daglega til vinnu,þeim gert að halda uppi starfi, námi og leik í sóttvarnarhólfum og með því að halda 2 metra fjarlægð sín á milli og nota grímu þegar það er ekki hægt.
Ég er þakklát að geta mætt í vinnu, það heilar mig að vera innan um krílin mín og ég gleymi því um stund að við erum stödd í auga stormsins, í miðjum heimsfaraldri. En mitt starf býður ekki alltaf upp á að ég geti tekið á móti krílunum mínum með 2 metra fjarlægð eða með grímu. Ég bið ekki foreldri 3 ára barns að láta það grátandi frá sér,færa sig tvo metra frá og ég sæki það svo. Nei það gengur bara engan veginn, ég þarf að taka þetta litla barn úr fangi foreldris í mitt fang svo það finni öryggi og hlýju……Börn eru nefnilega ekki hveitipokar sem er hægt að leggja frá sér og einhver annar sprittar svo og færir úr stað. Þetta eru litlar manneskjur sem leggja allt sitt traust á okkur kennarana sína þegar foreldrunum sleppir.
Þarna eru foreldrar, börn og kennarar komnir í mikla smithættu og mér finnst þetta hafa gleymst í allri umræðu um opnun skóla.
Það er öllum börnum nauðsynlegt að vera í skólanum sínum,með vinum sínum við leik og störf. Þar líður þeim flestum vel, þarna er griðarstaður margra barna og þeirra fasti punktur í heimi sem er einhvern veginn á hvolfi núna. Það er líka foreldrum og kennurum mikilvægt að verja sig fyrir veirunni og því hefðu yfirvöld mátt eyða aðeins meira púðri í að finna leiðir til að kennarar, börn og foreldrar geti komið örugg í skólana.
Mér varð á að veikjast illilega fyrir þremur árum, datt út af vinnumarkaði og hef verið að feta mig hægt og rólega upp prósentutöfluna, er komin í 60% vinnu í dag og stefni hraðbyri í 80%. Baráttan við Tryggingastofnun er endalaus þannig að í dag lifi ég á 60% launum……. Ég fékk 240.000 útborgað 1.nóvember……Menntaður leikskólakennari, deildarstjóri yfir 21 barna deild og ábyrgð sem fylgir því. Það segir sig sjálft að vinnuna mína mæti ég í fyrir krílin mín, samstarfsfólkið og ástríðuna fyrir námi og líðan ungra barna. Ég er ekki leikskólakennari launanna vegna……
Ég held að ráðamenn ættu nú aðeins að huga að því hvernig þeir búa að þeim stéttum sem mest mæðir á í Covid faraldrinum, kannski gera það að verkum að þegar ég opna launaumslagið mitt 1.desember taki eitthvað annað á móti mér en 240.000 krónur og í framhaldinu kvíði og áhyggjur vegna þess hvernig á að komast í gegnum mánuðinn…….Því jú ég lifi ekki á þakklætinu einu saman….
Enn einu sinni setjum við hausinn undir okkur, ég loka augunum og þakka fyrir að fá að mæta í vinnuna mína, anda djúpt og bið allt gott um að passa okkur öll og þá sérstaklega þá sem eiga um sárt að binda.
Ljós, gleði og hlýja út í kosmósið
Lóa 🙂
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst