Nýtt tengivirki HS Veitna og Landsnets í Vestmannaeyjum var formlega opnað á miðvikudaginn í síðustu viku. Athöfnin fór fram í tengivirkinu sjálfu þar sem gestum gafst tækifæri á að skoða mannvirkið en það inniheldur nýtt 66 kV spennuvirki sem gerir það að verkum að sæstrengurinn sem lagður var árið 2013 fullnýtist. Með þessu eykst flutningsgeta til Eyja umtalsvert eða um 15 MW í upphafi. Rekstraröryggi eykst einnig þar sem m.a. raforkuflutningur til Eyja fer ekki lengur um 66/33 kV spenni í aðveitustöð í Rimakoti. Tengivirkið hefur verið nefnt VEM/GARÐAR en GARÐAR nafnið er til heiðurs Garðari Sigurjónssyni sem var rafveitustjóri í Eyjum á árunum 1946 �?? 1986 eða í 40 ár.
Forstjóri HS Veitna hf, Júlíus Jónsson, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Hildur Sólveig Sigurðardóttir forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja ávörpuðu gesti og fóru yfir framkvæmdina og mikilvægi hennar fyrir Vestmannaeyjar. Byggingarframkvæmdir voru boðnar út haustið 2015 og var samið við Steina og Olla um byggingu hússins og hófust framkvæmdir í febrúar 2016. Uppsetning á rafbúnaði hófst haustið 2016 og var mannvirkið fullklárað í lok mars 2017. Byggingin sem er um 526 m2 er 62% í eigu HS Veitna og 38% í eigu Landsnets.
Kostnaður HS Veitna við spennuvirkið og tengd mannvirki var í heild um 518 m.kr. og innifalið í því er 66/33 kV spennir, tilheyrandi rofar og annar búnaður, 62% húsbyggingarinnar og loks nauðsynlegar tengingar við kerfið í Vestmannaeyjum. Kostnaður Landsnets var um 385 m.kr. vegna búnaðar í spennuvirkinu í Vestmannaeyjum og 38% hlutdeildar í byggingunni sem og nauðsynlegra breytinga í Rimakoti í Landeyjum.