ÍBV og Valur gerðu 22:22 jafntefli í Olís-deild kvenna í kvöld í sannkölluðum háspennuleik en minnstu munaði að Eyjakonur næðu að stela sigrinum áður en flautan gall í lok leiks.
Framan af leik leiddu Eyjakonur en slæmur kafli hjá liðinu í síðari hálfleik, þar sem liðið skoraði ekki í um 12 mínútur, varð til þess að sú forysta tapaðst niður og gott betur en það því Valur náði tveggja marka forystu þegar skammt var eftir. ÍBV náði hins vegar að jafna á lokamínútunni þegar Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði úr vítakasti sem Sandra Erlingsdóttir hafði fiskað. Í sókninni á eftir töpuðu Valskonur síðan boltanum og geystust þá leikmenn ÍBV fram völlinn í von um sigurmarkið en eins og fyrr segir var tíminn runninn út áður en boltinn rataði í netið.
Markahæst í liði ÍBV var Greta Kavaliauskaite með sex mörk. Guðný Jenný Ásmundsdóttir átti fínan leik í markinu en hún varði samtals 12 skot, þar af eitt víti.
Hér má sjá svipmyndir frá leiknum