18. nóvember sl. fangaði Ágúst Halldórsson, vélstjóri á Álsey VE, Grænlandsfálka um borð í skipinu. Síðan þá hefur fálkinn, sem fékk nafnið Árni Johnsen, verið í góðu yfirlæti hjá Ágústi og fjölskyldu á Dverghamrinum. Á sunnudaginn var hins vegar komið að kveðjustundinni en þá hafði Árni verið í rúman mánuð í endurhæfingu og meira en tilbúinn til að standa á eigin fótum og takast á við miskunnarleysi náttúrunnar. Frelsunin sjálf var nokkuð tilkomumikil en hún fór fram á svölum heimilis Árna Johnsen við Höfðaból en það var einmitt Árni sjálfur sem hleypti nafna sínum út úr búrinu. Fjöldi manns var saman kominn til að fylgjast með fálkanum sem tók sér andartak til umhugsunar áður en hann lét sig hverfa á brott.