Í gær greindum við frá því að aukaferðir Strætó væru einungis í boði í aðra áttina í kringum Þjóðhátíð. Framkvæmdastjóri Strætó sagði málið á forræði Vegagerðarinnar.
Sigríður Inga Sigurðardóttir, sérfræðingur á samskiptadeild Vegagerðarinnar segir í samtali við Eyjafréttir/Eyjar.net að öllu jöfnu allt árið gangi tvær ferðir daglega með landsbyggðarstrætó til Landeyjarhafnar og til baka. „Í kringum Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er svo 21 aukavagn sem gengur frá Reykjavík – Landeyjahafnar og má segja að 10 af þeim vögnum séu sérstaklega til að sækja farþega á mánudeginum eftir Verslunarmannahelgi.“
Að sögn Sigríðar Ingu er ástæða þess að aukavagnar sem gerðir eru út vegna Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum hafi ekki verið að taka með farþega í bakaferðinni, sé vegna þess hversu þröng tímaáætlun vagnanna er með það að leiðarljósi að ná að fullnýta þann tímaramma sem vagnarnir og bílstjórar hafa.
Munu taka núverandi fyrirkomulag til skoðunar fyrir Þjóðhátíð á næsta ári
„Til að hægt sé að taka farþega á bakaleiðinni þarf að tímajafna vagnana og gefa meiri vinnutíma á hvern vagn. Fyrir hverja stoppistöð sem gert er ráð fyrir að vagn stoppi við þarf að bæta við ákveðnu tímamagni í áætlun vagnsins. Þá er umferðarþungi á þjóðveginum einnig óvissuþáttur á hvort vagnarnir nái almennt að halda áætlun. Áhersla aukavagnanna er að hver aukavagn nái að aka til baka, hvíldartími vagnstjóra sé virtur og að vagnar nái næstu ferð sem er skráð á viðkomandi vagn.
Vegagerðinni hefur ekki verið kunnugt um að fyrirkomulag þetta hafi valdið vandræðum en í ljósi fyrirspurnarinnar mun Vegagerðin taka núverandi fyrirkomulag til skoðunar fyrir Þjóðhátíð á næsta ári. Vegagerðin vill árétta að það sé ávallt vilji til að endurskoða og bæta núverandi skipulag til að það sé notendum landsbyggðarstrætó í hag.“ segir Sigríður Inga.
Aukaferðir Strætó bara í aðra áttina fyrir Þjóðhátíð – Eyjafréttir (eyjafrettir.is)
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst