„Þetta er áhugaverð staða. Ríkisstjórnin hefur gefist upp á hlutverki sínu og boðað til kosninga ári fyrr en ætlað var. Það er greinilegt að andrúmsloftið innan ríkisstjórnarinnar er orðið baneitrað og ekki einu sinni víst að þau nái að hanga saman fram að kosningum,“ segir Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi þegar hann var beðinn um að leggja mat á stöðuna í íslenskum stjórnmálum í dag.
„Vandamálið eins og ég sé það, er að þau eru ekki að takast á um atriði sem almenningur setur í forgang. Þau eru ekki að sinna því sem skiptir máli akkúrat núna, sem er staða heimilanna í landinu sem glíma við himinháa vexti og verðbólgu. Við sjáum vanlíðan aukast meðal barnanna okkar og gerum lítið til þess að veita þeim viðunandi aðstoð. Kaupmáttaraukningin er engin þrátt fyrir fullyrðingar ríkstjórnarinnar um að hér hafi aldrei ríkt önnur eins velmegun.
Nú liggur það hins vegar fyrir að kosið verður innan skamms og nú þurfa allir að hlaupa hratt. Það er ekki hrist fram úr erminnin að manna lista en það er búið að ræsa allar vélar og allt komið á fullt. Við hjá Viðreisn erum spennt fyrir framhaldinu. Við höfum fundið fyrir miklum meðbyr að undanförnu og sá meðbyr mun fleyta okkur langt. Ég er sannfærður um það.
Aðalatriðið er samt að við förum glöð inn í þessa kosningabaráttu og tilbúin að bretta upp ermar eftir kosningar. Fólk er komið með nóg af aðgerðaleysi,“ segir Guðbrandur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst