Polka Bistro er nýr veitingastaður sem opnaði á dögunum í húsnæði Alþýðuhússins, hægra megin við aðal innganginn. Polka Bistro er í eigu Katarzyna Maik eða Kasiu eins og hún er kölluð.
Kasia hefur búið í Vestmannaeyjum frá árinu 2016. Hún hefur alltaf haft mikla ástríðu fyrir mat og eldamennsku og það hafði verið draumur hjá henni lengi að opna sinn eigin veitingastað, en hún hafði aldrei hugrekkið í það að hennar sögn.
Hugmyndin af opnun Polka Bistro kviknaði þegar hún hélt upp á 18 ára afmæli sonar síns. Þá héldu þau stóra veislu þar sem hún sá alfarið um veitingarnar. Út frá því ákvað hún að byrja að elda heima og prófa að bjóða upp á heimsendingar og þá fór boltinn að rúlla. Hún ákvað í kjölfarið að opna veitingastað og bjóða fólki upp á pólskan heimilismat í bland við annað, ásamt dýrindis eftirréttum og kaffi.
Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að sögn Kasiu. Í fyrstu voru það aðallega Pólverjar sem sóttu staðinn en núna eru alltaf fleiri og fleiri Íslendingar að koma. ,,Öll hráefni eru fersk og unnin alveg frá grunni. Maturinn er innblásinn úr pólskum uppskriftum sem koma frá mömmu, ömmu og langömmu.”
Polka Bistro er opinn alla daga á milli kl. 11:30-14:00 og 17:00-20:00. Á sunnudögum er opið frá kl. 15:00-20:00.
Kasia stefnir á að hafa staðinn opinn allan ársins hring.
Við óskum Kasiu til hamingju með nýja staðinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst