„Ég tók við sem rekstrarstjóri fyrstu vikuna í maí á síðasta ári. Ég kom úr Krónunni, þar sem ég hóf störf sem verslunarstjóri árið 2019. Þar áður rak ég Skýlið ásamt móður minni, Svanhildi Guðlaugsdóttur, í sex ár. Ég starfaði einnig oft hjá henni öll árin sem hún rak Skýlið,“ segir Ólafur Björgvin Jóhannesson, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Vestmannaeyjum. „Umskiptin voru talsverð, að fara úr matvöruverslun yfir í byggingar- og heimilisvörur, en grunnurinn er sá sami – að uppfylla þarfir viðskiptavina. Mikill tími hefur farið í að læra en ég nýt þess að starfa með öflugu starfsfólki sem hefur mikla reynslu og metnað til að veita framúrskarandi þjónustu. Vöruúrvalið er afar fjölbreytt – mótatimbur, byggingarstál, heimilistæki, málning og svo margt f leira. Mun meira en ég bjóst við í upphafi.“
Þjónusta bæði fagfólk og einstaklinga
„Við þjónustum aðallega fagmenn sem eru að byggja allt frá einbýlishúsum upp í fjölbýli, en einnig einstaklinga sem eru að laga, breyta og mála heima hjá sér. Hjá okkur fá fagmenn og heimili verkfæri af öllum stærðum og gerðum. Ef einhverjum vantar þvottavél eða önnur heimilistæki, þá er kjörið að koma til okkar, við erum alltaf með góð verð á heimilistækjum. Blómaval, sem er hluti af Húsasmiðjunni, sér svo um allt sem tengist blómum – og er eina blómaverslunin í Vestmannaeyjum. Þar er hægt að fá fallega blómvendi og aðstoð við útfarir. Þetta undirstrikar hversu fjölbreytt vöruúrvalið er hér í versluninni.“
Málning, byggingavörur og heimilisvörur
Húsasmiðjan í Vestmannaeyjum er með málningu frá Jotun, þar á meðal vinsælu innimálninguna Lady og JotaProff, auk viðar- og fúavarnar eins og Trebitt og Drygolin. „Við seljum einnig þakjárn, klæðningar, útidyra-, bílskúrs- og innihurðir, glugga og fleira – vörur sem þarf að sérpanta,“ segir Ólafur. „Við bjóðum líka upp á mikið úrval af grillum, reiðhjólum, trampólínum, pottum og pönnum, hnífapörum og gjafavöru. Þá höfum við sérstaka timbursölu, sem er vinsæl bæði hjá einstaklingum og verktökum. Já, það er af nógu að taka!“
Áskoranir og þjónustulund
Ólafur segir að mikil áhersla sé lögð á persónulega þjónustu og skilvirk samskipti við viðskiptavini. „Við fáum oft flókin og krefjandi verkefni, þar sem stundum vantar hlutina strax. Stærri pantanir kalla á skipulagningu, svo að varan berist á réttum tíma. Lagerstaðan getur verið breytileg, og það er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að flytja vörur til Vestmannaeyja. Okkar markmið er alltaf að hafa þjónustuna góða og verðið samkeppnishæft fyrir viðskiptavini Húsasmiðjunnar,“ segir Ólafur
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst