Togararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Grindavík á laugardaginn. Þeir voru að veiðum austan við Vestmannaeyjar og var aflinn langmest ýsa. Túrinn tók tvo sólarhringa en skipin voru innan við sólarhring að veiðum. Rætt er við Arnar Richardsson, rekstrarstjóra skipanna á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar er hann spurður hvort hann væri ekki sáttur við fiskiríið að undanförnu.
„Jú, það gengur vel að fiska en samt er vertíðin töluvert öðruvísi en oftast áður. Það þarf að hafa verulega fyrir veiðunum núna og mun meira en oftast áður. Skipin hafa líka siglt meira en oft áður, en landanir í Grindavík þýða meiri siglingar. Ýsan virðist halda sig mest austan við Eyjar en þorskurinn vestan við Eyjarnar. Ufsinn er hins vegar oftast í felum og spurning hvar hann heldur sig eiginlega. Það væri einfalt að fylla skipin af þorski í hverjum túr en það verður að blanda aflann. Ef miðað er við byrjun ársins í fyrra þá hefur fiskast minna í ár. Meginástæða þess er veðurfarið. Veðrið var mjög óhagstætt í janúar, febrúar og alveg fram í mars. Staðreyndin er sú að það veiðist oft ágætlega núna og þess vegna er engin ástæða til að kvarta mikið, en það er fyrirhafnarsamara að sækja aflann en oft áður. Bæði skip munu koma til löndunar á ný á morgun þannig að túrinn hjá þeim er ekki langur,” sagði Arnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst