Farþegaflutningar Herjólfs hafa aldrei verið meiri í júní en í nýliðnum júnímánuði, TM-mótið og Orkumótið draga auðvitað þúsundir farþega til Eyja en auk þess er stríður straumur aðra daga með skipinu.
Að sögn Ólafs Jóhanns Borgþórssonar, framkvæmdastjóra Herjólfs ferðuðust alls 72.463 farþegar með Herjólfi í liðnum mánuði sem gerir ríflega 7% fjölgun farþega á milli ára. Þar að auki með ríflega tvö þúsund fleiri farþega en þegar mest hefur verið í júnímánuði en metið var síðast slegið árið 2022. Að sama skapi hafa flutningar á bílum aldrei verið meiri en fylgifiskur þess er sá hvimleiði vandi að biðlistum fjölgar í ferðirnar.
„Til að mæta því vandamáli fjölgum við nú ferðum yfir mesta háannatímann, eins og gert var í fyrra. Nú eru sigldar átta ferðir á dag til 10. ágúst og viljum við vekja athygli á breyttri áætlun vegna þess. Við viljum leggja okkur fram um að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að þjónusta samfélagið sem allra best,“ segir Ólafur Jóhann að lokum og stígur út af ritstjórnarskrifstofunni á þessum bjarta morgni og heldur glaður út í norðankaldann eftir skemmtilegt spjall.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst