Listakonan og hönnuðurinn Þuríður Kristín Kristleifsdóttir, eða Þura Stína eins og hún er kölluð sýnir á Goslokahátíð í ár, en þetta er fyrsta skipti sem hún sýnir í Eyjum. Þura verður með sýningu sem hefur þegar vakið athygli í Reykjavík. „Ég opnaði mína fyrstu einkasýningu á HönnunarMars í ár og bar hún heitið Drottningar,“ segir Þura. ,,Sýningin er plakatasería og hlutir þar sem ég leik mér með hugtakið ,,drottning“ og geri tilraun til að draga fram drottninguna í okkur öllum.“
Sýningin sem hún var með á HönnunarMars stóð yfir í 10 daga og á meðan á sýningunni stóð héldu áfram að fæðast hugtök og hugmyndir. Þuru langaði til þess að opna sýninguna hér í Eyjum líka og fannst Goslokahátíðin tilvalin til þess. Ásamt sýningunni verður Þura einnig með opna ,,pop-up“ verslunina Surashop.is og þannig getur áhorfandinn tekið verkin með sér heim. Þura verður einnig með fleira en plaköt í drottningarþemanu, en hún verður meðal annars með púða með ísaumuðu ,,Drottning blessi heimilið“ sem er skírskotun í útsaumsverkin sem hengu á mörgum heimilum þar sem við Drottinn var beðinn um að blessa heimilið. Ásamt þessu er Þura líka með kort, derhúfur og stuttermaboli sem draga fram hversdagsleikann í drottningunni. ,,Það eru ekki allar drottningar í háum hælum, kjól og með kórónu. Sumar drottningar eru bara í stuttermabol með derhúfu,“ bætir hún við.
Aðspurð um innblásturinn að verkunum segir Þura að hann hafi að miklu leyti komið úr hennar nánasta umhverfi og þá sérstaklega frá dætrum hennar. „Ég er í fæðingarorlofi með yngri dóttur minni, Myrru Karitas, og eldri dóttirin, Emilía Karin, hefur haft mikinn áhuga á skák. Hún passaði alltaf sérstaklega upp á drottninguna sína á borðinu og hafði litla trú á kónginum – því hann má jú bara færa sig einn reit,“ Þura fór að taka eftir því í framhaldi af þessu hvað við notum orðið mikið í íslenskunni og yfirleitt þegar við erum að tala um eitthvað sem er best eins og allar drottningarnar í íþróttunum, hlaupadrottning, sunddrottning, skíðadrottning og svo framvegis. ,,En ég sæki innblástur almennt séð í fólk og fæ auka orku við að vera innan um annað fólk. Mér finnst við öll vera drottningar, bara mismikið – þetta er svona skali, drottningarskali.“ Þura bætir við að henni þyki orðið einnig svo ótrúlega fallegt og jákvætt. Hún segist hafa verið óhrædd við að fara út í smá húmor í þetta sinn, en þau verkefni sem hún hefur verið að leikstýra og framleiða hafa oft verið með mun alvarlegri undirtón og segir hún það hafa verið ótrúlega gaman að leika sér með hláturinn og bara leyfa hlutunum að flæða án þess að ritskoða sig of mikið. ,,Maður verður að hafa húmor fyrir sjálfum sér og ég fékk þetta hugtak alveg á heilann og leyfði mér það bara.“
En hvernig myndi Þura Stína lýsa sínum stíl? Hann endurspeglar mjög mikið hvernig mér líður hverju sinni. Ég er grafískur hönnuður, leikstjóri, framleiðandi og tónlistarkona, allt tengist þetta á sinn hátt og mér finnst svo frelsandi og í raun mikil forréttindi falin í því að geta valið mér verkefni sem mér finnst skemmtilegt að vinna í. Ég segi í dag hiklaust nei við þeim verkefnum sem ég veit að munu ekki vera gefandi fyrir mig eða spennandi að takast á við. Maður er hins vegar alltaf smá að berskjalda sig þegar maður vinnur svona verk alveg út frá sjálfum sér eins og einkasýning er en það er um leið ótrúlega gaman að gera eitthvað alveg frá hjartanu. Stíllinn minn er því marglaga eftir því hvaða miðil ég er að vinna í hverju sinni en tekur líka inn hvar ég er stödd í mínu persónulega lífi. Þetta er í fyrsta sinn sem Þura sýnir í Vestmannaeyjum, en henni hefur lengi langað að sýna verkin sýna í Eyjum að eigin sögn. ,,Ég er svo heppin að fá að opna sýninguna og pop-up verslun í HeimaDecor. Það er svo falleg búð og allt til alls, Sigrún og Halldór tóku mér opnun örmum, drottningarnar sem þau eru og ég hlakka mikið til að sýna ykkur og opna litla drottningarheiminn inn í búðinni hjá þeim,“ segir hún að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst