Karlalið ÍBV vann stórkostlegan 2-1 sigur á KR í 17. umferð Bestu deildar karla á Hásteinsvelli í dag. Fyrri hálfleikurinn var mjög fjörlegur en Eyjamenn fengu víti strax á 11. mínútu leiksins. Oliver Heiðarsson átti þá sendingu í gegn á Sverri Pál Hjaltested sem var tekinn niður inn í teig KR-inga. Vicente Valor steig á punktinn og skoraði örugglega fram hjá Halldóri Snæ í markinu. Fimmtán mínútum síðar náði KR að jafna leikinn en það gerði Amin Cosic eftir flott einstaklingsframtak. Eyjamenn fengu tvö góð færi til að komast í 2-1 en markvörður KR-inga varði tvisvar sinnum frábærlega frá Hermanni Þór Ragnarssyni. Staðan því 1-1 í hálfleik.
Eyjamenn voru töluvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik og fengu urmul af færum til að komast yfir. Það var þó ekki fyrr en á lokamínútum leiksins að Eyjamenn náðu að setja boltann í netið. Arnar Breki Gunnarsson fékk þá boltann úti vinstri megin og náði að lauma honum inn fyrir á Bjarka Björn Gunnarsson. Bjarki Björn kom með góða sendingu fyrir markið og þar var fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson mættur til að klára leikinn fyrir Eyjamenn. Lokatölur 2-1 og frábær sigur ÍBV í höfn.
Mikilvægur sigur hjá Eyjamönnum sem eru eftir leikinn í 7. sæti með 21 stig á meðan KR er í 11. sæti með 17 stig.
Sunnudaginn 10. ágúst fara Eyjamenn norður og taka á móti KA. Leikurinn fer fram á Greifavellinum kl. 16:30
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst