Eitt mál var á dagskrá fundar bæjarráðs Vestmannaeyja í gær. Þar var fjallað um Eygló, eignarhaldsfélag um ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum og sölu innviða úr félaginu.
Fjarskiptainnviðir Eyglóar voru auglýstir til sölu á vef Vestmannaeyjabæjar þann 10. júní sl. og í framhaldi í öðrum miðlum. Frestur til að skila inn tilboðum rann út á hádegi föstudaginn 11. júlí sl. Eitt kauptilboð barst og var það frá Mílu hf. og hljóðaði upp á 705 m.kr.
Stjórn Eyglóar ræddi kauptilboð Mílu hf. á fundi sínum þann 15. júlí sl. og samþykkti að ganga til samninga við Mílu á grundvelli fyrrgreinds kauptilboðs. Bæjarráð staðfesti síðan á fundi ráðsins 23. júlí sl. þá ákvörðun stjórnar Eyglóar um að ganga til samninga við Mílu hf. um sölu á fjarskiptainnviðum Eyglóar.
Þann 11. ágúst sl. lá kaupsamningur fyrir milli Vestmannaeyjabæjar og Mílu hf. á fundi stjórnar Eyglóar en hann byggir á fyrrgreindu kauptilboði. Samþykkti stjórnin kaupsamninginn fyrir sitt leyti og vísaði honum til endanlegrar staðfestingar í bæjarráði.
Í niðurstöðu segir að bæjarráð samþykki samhljóða fyrirliggjandi kaupsamning milli Vestmannaeyjabæjar og Mílu hf. um fjarskiptainnviði Eyglóar.
Samkvæmt samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar fer bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn í sumarleyfi bæjarstjórnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst