Aðeins nokkrir dagar í að nýtt fiskveiðiár hefjist, en ég hef að undanförnu verið að velta fyrir mér þessu með blessaða sérfræðingana okkar.
Ef við byrjum á veðurfræðingunum, þá er það nú einu sinni þannig að flestir þekkja það að veðurspá viku fram í tímann stenst yfirleitt ekki. Þess vegna þótti mér svolítið skondið í fyrra sumar að horfa upp á Sigga storm sjálfan mæta í beina útsendingu og biðjast afsökunar á því að hafa spáð því að sumarið yrði gott, sem það varð alls ekki. Samt var hann aftur kallaður til í vor, en í ár spáði hann því að sumarið yrði svolítið rysjótt, sem að gekk heldur ekki eftir, enda frábært sumar að baki. amk í flestum landshlutum og mér varð hugsað til þess, að 1. maí í vor fór ég bakvið Háhá og fékk 4 máfsegg í 2 hreiðrum, sem er óvenju snemmt en spáði því þá um leið að þetta yrði frábært sumar og klárlega verð ég að fara aftur 1. maí á næsta ári, það verður spennandi að sjá hvað ég fæ þá og hvaða merkingu það hefur, en ég hef lengi verið á þeirri skoðun að náttúran og lífríkið segi okkur miklu meira um hvað verður og miklu frekar heldur en einhverjir sérfræðingar.
Tökum annan hóp sérfræðinga, eldfjallasérfræðinga, eða náttúruvárliðar. Nú hafa allir þessir eldfjallasérfræðingar fylgst með mjög öflugum og góðum tækjum með öllum hreyfingum á gosstöðvunum við Grindavík. Samt hefur viðbragðstíminn við það að það sé að hefjast gos aldrei náð meira en innan við klukkutíma og þegar þessir sömu sérfræðingar eru spurðir út í hugsanleg goslok, þá hefur það einfaldlega aldrei staðist, enda er stór hluti af þessari vinnu hjá þessum sérfræðingum fyrst og fremst ágiskanir og að reyna að lesa úr gögnum.
Varðandi veðurfræðingana, þá er þetta eitthvað sem skiptir kannski ekki miklu máli þó að veðurspáin standist kannski ekki. Að mörgu leyti skiptur það svipuðu máli varðandi spár eldfjallasérfræðingana nema að því leytinu til að þetta er óþægilegt ástand fyrir íbúa Grindavíkur. Að sjálfsögðu hefur maður þó alveg skilning á því að menn vilja hafa varan á sér þegar kemur að eldgosum.
Allt öðru máli skiptir þegar kemur að sérfræðingum Hafró, en nú er liðið rúmt ár síðan að helstu sérfræðingar Hafró spáðu því, að þorskkvótinn yrði minnkaður fyrir komandi fiskveiðiár, eins og raun ber vitni, en á sama tíma hefur sennilega aldrei verið jafn mikið af þorski á Íslandsmiður og í ár og undanfarin ár.
Sjálfur fór ég á sjó í dag (í gær) og prófaði að renna færi á nokkrum stöðum og allstaðar varð ég var við þorsk. Ég hef ákveðinn skilning á því að núverandi atvinnumálaráðherra velji að fara að tillögum Hafró, enda er það einfaldasta og auðveldasta aðferðin til þess að firra sig ábyrgð.
En hvað kostar þessi niðurstaða?
Ef við miðum við loforðin frá því 1984 þá kostar þetta okkur 100 milljarða á hverju ári og ef við höfum það í huga að síðustu 30 árin hefur nánast algjörlega verið farið að tillögum Hafró og það þrátt fyrir að það hafi engu skilað. Það er augljóst að það er eitthvað mikið að aðferðarfræði Hafró við að mæla stærð fiskistofnanna og algjörlega augljóst að það verður að fara að grípa inn í og breyta þessu þannig að við getum farið að veiða í samræmi við getu fiskistofnanna, en ekki úreltar aðferðir Hafró við að mæla stærð fiskistofnanna.
Við getum hlegið að því þegar veðurspáin stenst ekki, við getum líka horft á eldfjallasérfræðingana úr fjarlægð og haft svona ákveðið gaman að því þegar fréttamenn eru að reyna að fá þá til að spá fyrir um upphaf eða endi eldgosa, en það er orðið algjörlega nauðsýnlegt að við förum að nýta sjávarauðlindina okkar af heilbrigðri skynsemi.
Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs.
Georg Eiður Arnarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst