Makrílvertíðinni er lokið og nú taka við veiðar á síld og kolmunna hjá Vinnslustöðinni. Haft er eftir Sindra Viðarssyni, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar á vefsíðu fyrirtækisins að Gullberg VE hafi landað kolmunna í Eyjum á þriðjudaginn og fór aflinn í bræðslu.
„Aflinn fékkst í Rósagarðinum. Veiðin er búin að vera mjög góð í kolmunnanum og þeir fóru aftur á kolmunnaveiðar. Byrjuðu veiðar aftur í gær,“ segir Sindri.
Á sama tíma fór Huginn austur í Héraðsflóa og náði þar í fyrstu síldina á vertíðinni. „Við byrjuðum í gærmorgun að vinna og reikna ég með að við verðum eitthvað inn í helgina.“ Kvóti fyrirtækisins í síld er um 7.000 tonn af norsk-íslenskri síld og 12.000 tonn af íslenskri, að sögn Sindra.
Benóný Þórisson, framleiðslustjóri í uppsjávarvinnslu VSV, segir síldina vera bæði stóra og góða. „Ekkert undan því að kvarta,“ segir hann. „Það er góður gangur í vinnslunni, við vinnum á vöktum og erum bæði að flaka og heilfrysta síldina,“ bætir hann við, nýkominn út í á, að renna fyrir fisk þegar fréttaritari vsv.is náði sambandi við hann.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst