Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) gagnrýnir harðlega nýlegar uppsagnir í sjávarútvegi og segir óásættanlegt að útgerðin noti starfsfólk sitt sem vopn í deilu um veiðigjöld. Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum í dag.
Í ályktuninni segir að auðlindir hafsins í kringum Ísland séu ekki séreign útgerðarinnar, þó að hún hafi um langt skeið fengið aðgang að þeim án eðlilegs endurgjalds til eigenda auðlindarinnar, þjóðarinnar. ASÍ bendir á að íslenskur sjávarútvegur hafi verið vel rekinn undanfarna áratugi, skilað góðri afkomu og byggt upp eigið fé sem nemur hundruðum milljarða króna.
„Miðstjórn ASÍ telur óboðlegt að útgerðin beiti uppsögnum starfsfólks sem vopni í pólitískum slag um veiðigjöld,“ segir í ályktuninni. Þar kemur jafnframt fram að nýting sameiginlegrar auðlindar snúist ekki eingöngu um hag eigenda útgerðarfyrirtækja heldur einnig um samfélagslega ábyrgð, hag nærsamfélags og starfsfólks.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst