Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í síðustu viku var tekið fyrir erindi frá framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 þar sem sveitarfélög eru hvött til að leggja sitt af mörkum til að minnast 50 ára afmælis kvennafrídagsins og gera konum og kvárum sem starfa hjá sveitafélaginu kleift að taka þátt í kvennaverkfalli sama dag.
Kvennaárið 2025 er tileinkað baráttu kvenna, femínista, hinsegin og fatlaðs fólks fyrir jafnrétti. Þann 24. október 1975 lögðu um 90 prósent íslenskra kvenna niður störf til að mótmæla kynbundnum launamun og ólaunaðri vinnu kvenna, og markaði sá dagur tímamót í jafnréttisbaráttu á Íslandi.
Fram kemur í afgreiðslu ráðsins að bæjarráð leggi til – þar sem því er við komið – að þeir sem ætli að sækja viðburði tengda Kvennafrídeginum geti farið úr vinnu klukkan 14 föstudaginn 24. október 2025.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst