Pólski markvörðurinn Marcel Zapytowski hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild ÍBV um tvö ár. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu félagsins.
Zapytowski hefur verið einn af lykilmönnum ÍBV á tímabilinu og átt stóran þátt í sterkum varnarleik liðsins. Aðeins Íslandsmeistarar Víkings hafa fengið á sig færri mörk í Bestu deildinni í sumar.
Marcel, sem er 24 ára, hefur staðið vaktina í markinu í 25 af 26 deildarleikjum ÍBV og hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína.
Í tilkynningunni segir að markvörðurinn hafi notið þess að vera í Vestmannaeyjum og hafi viljað tryggja áframhaldandi dvöl sína í Eyjum. Þá lýsir knattspyrnuráð ÍBV mikilli ánægju með framlenginguna og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við hinn efnilega markvörð.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst