Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna veðurs fyrir eftirtalin svæði: Suðurland, Faxaflói, Breiðafjörður, Vestfirðir, Austurland að Glettingi, Austfirðir, Suðausturland, Miðhálendi og Strandir og norðurland vestra.
Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi á morgun, 31. okt. kl. 09:00 og gildir til 1. nóv. kl. 07:00. Í viðvörunartexta segir: Hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s undir Eyjafjöllum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 m/s. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og lokanir á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.
Einnig má benda á að ölduspáin fyrir Landeyjahöfn fer hækkandi þegar líður á morgundaginn.
Uppfært kl. 12.12: Í tilkynningu frá Herjólfi ohf. segir: Við viljum góðfúslega benda farþegum okkar á sem ætla sér að ferðast með okkur á morgun föstudag að skv. ölduspá eiga aðstæður til siglinga í Landeyjahöfn að fara versnandi þegar líða tekur á morgundaginn. Tilkynning varðandi siglingaáætlun fyrri hluta föstudags verður gefin út fyrir kl. 06:00 í fyrramálið. Einnig viljum við benda á að skv. ölduspá eru aðstæður til siglinga í Landeyjahöfn á laugardagsmorgun ekki hagstæðar. Ef gera þarf breytingu á áætlun, gefum við það út um leið og það liggur fyrir. Á þessum árstíma er alltaf hætta á færslu milli hafna og því ekki æskilegt að skilja eftir farartæki í annarri hvorri höfninni.

Á laugardag:
Minnkandi norðaustanátt, 5-13 m/s síðdegis, en 13-18 norðvestantil fram á kvöld. Rigning eða slydda með köflum, en snjókoma og skafrenningur á Vestfjörðum. Talsverð rigning austan- og suðaustantil. Hiti 1 til 9 stig, mildast sunnanlands.
Á sunnudag:
Norðaustan 8-15 og snjókoma norðvestantil, en dregur úr ofankomu síðdegis. Annars hægari með lítilsháttar vætu. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.
Á mánudag:
Gengur í austan og norðaustan 8-15. Víða rigning eða slydda, en úrkomuminna norðvestantil. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag:
Suðlæg eða breytileg átt og víða rigning eða slydda, en lengst af þurrt austanlands. Hiti 2 til 7 stig.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir austlæga átt með éljum eða slydduéljum, en þurrt að mestu norðantil. Hiti í kringum frostmark.
Spá gerð: 30.10.2025 08:13. Gildir til: 06.11.2025 12:00.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst