Jarðrannsóknir milli lands og Eyja í bígerð

Búið er að stofna félag sem fær nafnið “Eyjagöng ehf.”. Félagið er stofnað til að leiða eitt mikilvægasta rannsóknarverkefni samgöngumála á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum um áratugaskeið. Fram kemur í tilkynningu frá forsvarsmanni félagsins að tilefni stofnunarinnar sé niðurstaða starfshóps á vegum samgönguráðuneytisins frá árinu 2024, þar sem skýrt kom fram að brýnt væri að ráðast í ítarlegar jarðrannsóknir á svæðinu milli lands og Heimaeyjar vegna mögulegrar jarðgangagerðar.

Slíkar rannsóknir eru forsenda þess að hægt sé að taka upplýstar og ábyrgar ákvarðanir um framtíðar samgöngutengingu Eyjanna við meginlandið. Að félaginu standa einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög sem sameinast um það markmið að skapa traustan og gagnsæjan grunn fyrir áframhaldandi vinnu við verkefnið. Með heildstæðum jarðrannsóknum er stefnt að því að draga úr óvissu um umfang, tæknilega framkvæmd og kostnað mögulegrar vegtengingar og þannig stuðla að faglegri ákvarðanatöku um eitt stærsta innviðaverkefni svæðisins.

Tilkynningin í heild sinni:

Fréttatilkynning frá Eyjagöngum ehf.

Í fyrra komst starfshópur á vegum samgönguráðuneytisins að þeirri niðurstöðu að brýnt væri að ráðast í jarðrannsóknir á Heimaey og við Kross í Landeyjum vegna mögulegrar jarðgangagerðar milli lands og Eyja. Í framhaldi af því hefur verið stofnað félag að frumkvæði einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga með það að markmiði að framkvæma rannsóknir á jarðlögum á milli lands og Heimaeyjar. Með rannsóknunum er stefnt að því að draga verulega úr óvissu varðandi kostnað við mögulega vegtengingu.

Félagið hyggst afla 200 milljóna króna í fyrstu fjármögnunarlotu, og liggja nú þegar fyrir hlutafjárloforð sem nema rúmum helmingi þeirrar fjárhæðar. Þá er félagið í nánu samstarfi við Vegagerðina um undirbúning verðkannana vegna fyrirhugaðra borana sem áætlað er að hefjist á vormánuðum 2026.

Áformað er að boða til kynningarfundar um miðjan janúar þar sem verkefnið verður kynnt ítarlega og landsmönnum gefinn kostur á að skrá sig fyrir hlut í félaginu.

Fyrir hönd Eyjaganga ehf.

Árni Sigfússon

Nýjustu fréttir

Elliði maður leiksins og Ísland í undanúrslit
Beðið með eftirvæntingu eftir loðnuráðgjöf
KR-ingur á láni til ÍBV
Elliði Snær skoraði átta mörk í jafntefli Íslands
Fylgi flokkanna í Eyjum
Komu inn vegna veðurs
Afslættir hverfa með bættu raforkuöryggi
Jason Stefánsson meðal útskriftarnema FÍV 
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.