„Óli Gränz“ er heiti endurminninga Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa, frá Vestmannaeyjum. Hann fæddist í Eyjum 16. janúar 1941 og hefur lagt gjörva hönd á margt á lífsleiðinni. Var ungur til sjós og síðar farsæll iðnaðarmaður, rak bílaleigu og verslun, settist á Alþingi og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, var bókaútgefandi á heimsvísu og mikilvirkur í félagsmálum. Óli segir frá æsku sinni og uppvexti, þátttöku í atvinnulífi og pólitík, einkamálum, prakkarastrikum og eldgosunum í Surtsey og Heimaey. Bókin er 315 bls. og prýdd fjölda mynda. Guðni Einarsson skráði. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.

„Ég var valinn til formennsku í ýmsum nefndum í AA-samtökunum, t.d. skemmtinefndum, ferðanefndum, húsnefnd o.fl. Haustið 1975 ákvað ég að halda áfengislaust ball í Vestmannaeyjum. Ég fór til Óla Ísfeld, framkvæmdastjóra Samkomuhúss Vestmannaeyja, og leigði húsið fyrir ballið, Haustgrín 2, þann 21. nóvember þetta haust. Það hafði enginn trú á þessu þegar ég fékk hugmyndina. Boðið var upp á kvöldverð, skemmtiatriði og dansleik. Kostnaði var mjög stillt í hóf. Bæjarstjórnin kom ásamt mökum og einnig aðrir helstu framámenn bæjarins. Það mættu upp undir 500 manns, eða 10% af bæjarbúum, og vakti þetta mikla athygli. Allir voru bláedrú nema einn sem vínlykt fannst af. Óli Ísfeld sagði við mig eftir ballið að þetta hefði verið í eina skiptið í tíð hans sem haldið var ball í Höllinni án þess að það brotnaði eitt einasta glas.

Ég undirbjó skemmtiatriði og samdi meðal annars tvo leikþætti. Í öðrum léku þeir Grétar Pétursson og Þórarinn Grímsson. Grétar, sem æfði lyftingar sér til heilsubótar og var vel á sig kominn, rembdist við að lyfta stöng með stórum lóðum og stundi mikið og öskraði af áreynslunni. Ég hafði útbúið lyftingastöngina úr rafmagnsröri úr plasti og lóðin úr frauðplasti. Svo málaði ég þetta svo að það leit mjög eðlilega út. Stöngin svignaði þegar Grétar lyfti og þegar hann lét hana detta var ég með stóran tréhnall á bak við og lét hann vaða í gólfið svo það buldi í.
Þórarinn lék væskilslega ræstingakonu sem kom inn með skúringafötu í annarri hendi og heimtaði að þetta drasl, lóðin, yrði tekið af gólfinu. Lyftingamaðurinn var ekki til í það svo ræstingakonan tók stöngina með annarri hendi og kastaði draslinu á bak við tjaldið. Þá buldi heldur betur í gólfinu! Þetta vakti mikla kátínu.

Í loftinu á salnum voru tveir sterkir kengir. Aflaskipstjórinn Siggi Vídó var þéttur á velli en kattliðugur. Hann tók að sér að róla gestum til skemmtunar. Við festum sex metra háa rólu í kengina og stöfluðum svo upp borðum aftast á sviðinu. Ljósin voru slökkt og Siggi prílaði klæddur nærbol og stuttbuxum upp á borðin og settist í róluna. Hann hélt á fjórum logandi stjörnuljósum í hvorri hendi þegar rólunni var sleppt. Það var mjög tignarlegt að sjá hann taka sveifluna yfir endilangan, myrkvaðan salinn, fullsetinn af gestum. Svo rólaði hann fram og aftur. Sveiflan var svo mikil að minnstu munaði að hann snerti svalirnar hinum megin í salnum. Fólki brá við að sjá þetta og það tók andköf af undrun og hrifningu. Við ætluðum varla að ná því að stoppa Sigga þegar okkur fannst nóg komið. Það hafði ekki gefist tími til að prófa atriðið fyrir skemmtunina svo að þetta var bæði generalprufa og frumsýning! Þetta var að mínu mati flottasta atriðið.

Auk þessa voru fjölbreytt tónlistaratriði og skemmtuninni lauk með dúndrandi dansleik langt fram á nótt. Í hljómsveitinni spilaði Hjalli á trompet, Maggi Emils á trommur og Einar klink, Einar Sigurfinnsson, söng af sinni alkunnu snilld svo að nokkrir séu nefndir. Sérsvið hans var að túlka lög Fats Domino og gerði hann það listavel. Skemmtunin var mjög vel heppnuð og sannfærði marga um að það væri alveg hægt að skemmta sér án áfengis. Ég er viss um að þetta hjálpaði mörgum til að ná sér á strik og það fjölgaði mikið í AA-samtökunum í Eyjum eftir skemmtunina. Deddi Ingimundar, Bernharð Ingimundarson, tók að sér að halda utan um peningamálin og þetta framtak stóð alveg undir sér.”




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.