Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt tillögu framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs um skipan tveggja stýrihópa sem eiga að fara yfir mögulegar hagræðingarleiðir innan sveitarfélagsins.
Annar hópurinn mun fjalla um hagræðingu á umhverfis- og framkvæmdasviði. Í honum sitja Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri sviðsins, Rannveig Ísfjörð byggingarfulltrúi, Dóra Björk Gunnarsdóttir hafnarstjóri, Helga Jóhanna Harðardóttir aðalmaður í framkvæmda- og hafnarráði og Margrét Rós Ingólfsdóttir varaformaður í umhverfis- og skipulagsráði.
Hinn hópurinn mun skoða hagræðingarleiðir innan stjórnsýslu- og fjármálasviðs og fjölskyldusviðs. Í honum eiga sæti Drífa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs, Silja Rós Guðjónsdóttir umsjónarfélagsráðgjafi, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Hrefna Jónsdóttir formaður fjölskyldu- og tómstundaráðs og Gísli Stefánsson varaformaður sama ráðs.
Bæjarráð samþykkti tillöguna samhljóða og fól framkvæmdastjóranum að útbúa erindisbréf fyrir stýrihópana.