Stofnmælingar botnfiska að haustlagi fór fram í þrítugasta sinn dagana 27. september til 17. október 2025. Togararnir Breki VE-61 og Þórunn Sveinsdóttir VE-401 tóku þátt í verkefninu í ár ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni HF-200. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti frá árinu 1996, að því er segir í tilkynningu frá Hafrannsóknastöfnun.
Stofnvísitala þorsks í ár lækkar eftir litlar breytingar síðustu þriggja ára. Vísitalan er þó yfir meðaltali áranna 1996 – 2025. Lítið mældist af 8-15 cm þorski (0 grúppu). Stofnvísitala ýsu lækkar einnig frá hámarkinu árið 2022 en er þó yfir meðaltali áranna 1996 – 2025. Mæling á 0- grúppu ýsu var sú hæsta í fimm ár.
Vísitala grálúðu lækkar aðeins en vísbendingar eru um bætta nýliðun. Þróun vísitölu gullkarfa er jákvæð en vísitala djúpkarfa helst óbreytt á milli ára. Nýliðun þessara tveggja stofna hefur mælst lítil sem engin um árabil, en hefur þó orðið vart hjá gullkarfa eftir 2020. Vísitala ufsa hefur haldist nokkuð óbreytt undanfarin sex ár. Vísitala gulllax lækkar frá fyrri árum en er þó há og langt yfir meðaltali áranna 1996-2025. Vísitala blálöngu hækkar og er nú nálægt meðaltali áranna 1996-2025 Vísitala keilu er ein af þeim hærri sem mælst hafa yfir tímabilið 1996-2025. Aldurslesningu á þorski er ólokið en niðurstöður verða uppfærðar þegar þeirri vinnu lýkur snemma á næsta ári.
Niðurstöður úr stofnmælingum að haustlagi verða ekki kynntar í sérstakri skýrslu líkt og undanfarin ár. Í stað hennar hefur verið tekin í notkun nýr sameiginlegur vefur stofnmælingaleiðangranna SMB (stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum) og SMH (stofnmæling botnfiska að haustlagi). Þar eru helstu niðurstöður þessara tveggja leiðangra settar fram og þær bornar saman við fyrri ár. Á vefnum má m.a. sjá og fylgja eftir vísitölum og árgangastærðum frá því að mælingar hófust, útbreiðslu og fæðu helstu tegunda. Þar má einnig sjá og nálgast öll gögn sem liggja að baki myndanna, segir í tilkynningu Hafró.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst