Veðurhorfur á landinu í dag, aðfangadag jóla eru samkvæmt Veðurstofu Íslands þannig: Sunnan og suðvestan 15-25 m/s, hvassast í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Talsverð eða mikil rigning sunnan- og vestanlands, en þurrt að kalla norðaustantil. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi. Minnkandi sunnanátt á morgun, 10-18 m/s síðdegis og áfram talsverð rigning eða súld, en léttir til á Norður- og Austurlandi. Áfram hlýtt í veðri.
Spá gerð: 24.12.2025 07:29. Gildir til: 26.12.2025 00:00.
Rétt er að geta þess að gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi til kl. 19.00 í kvöld. Talsverð eða mikil rigning. Búast má við auknu afrennsi og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Greint er frá því á veðurvefnum blika.is að allt útlit sé fyrir mikil vetrarhlýindi á aðgangadag og leysingu þar sem yfir höfuð er einhvern snjó að finna. „Hlýindin standa fram á jóladag. Gæti orðið einn allra hlýjasti aðfangadagadagur sem vitað er um. Keppir í þeim efnum helst við 2006.”
Á föstudag (annar í jólum):
Vestan og suðvestan 10-18 m/s og víða rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla framan af degi, síðan lítilsháttar snjó- eða slydduél og rofar til fyrir austan. Hiti 0 til 5 stig.
Á laugardag:
Sunnan og suðvestan 8-13 m/s, sums staðar dálítil væta og hiti 1 til 6 stig. Hægari og þurrt austanlands með hita kringum frostmark, en hvessir og hlýnar þar seinnipartinn.
Á sunnudag og mánudag:
Suðvestlæg átt, dálítil væta öðru hvoru og hiti 1 til 6 stig, en bjart að mestu og hiti nálægt frostmarki fyrir austan.
Á þriðjudag:
Útlit fyrir hæga suðlæga eða breytilega átt og þurrviðri, en hvessir með rigningu vestantil undir kvöld. Hlýnar smám saman í veðri.
Spá gerð: 24.12.2025 08:14. Gildir til: 31.12.2025 12:00.
Sunnan hvassviðri eða stormur er í fullum gangi á landinu í dag. Hvassast er á norðanverðu landinu. Auk þess er spáð talsverðri eða mikilli rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Gular og appelsínugular eru í gildi og fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Hins vegar er lengst af þurrt norðaustan- og austantil. Óvenju hlýtt er í veðri í dag, hiti 7 til 18 stig, hlýjast í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi.
Á morgun dregur smám saman úr vindi, sunnan 10-18 m/s síðdegis. Áfram talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu, en léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi. Áfram hlýtt veður.
Skil fara yfir landið aðfarnótt föstudags og þá dregur loksins aðeins úr vætu. Vestan og suðvestan 10-18 m/s og stöku skúrir eða slydduél, en rigning eða slydda framan af degi austantil, léttir til síðdegis þar. Kólnar í veðri, hiti 0 til 5 stig yfir daginn.
Spá gerð: 24.12.2025 05:02. Gildir til: 25.12.2025 00:00.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst