Eyjafréttir og eyjafrettir.is hafa verið á mikilli siglingu á árinu sem nú er senn á enda og áfram skal haldið. Fréttavefurinn hefur fest sig í sessi sem öflugur fréttamiðill og heimsóknum fjölgar í samræmi við það. Eyjafréttir enduðu árið með stærsta jólablaði í 51 árs sögu blaðsins, 56 síðum af fjölbreyttu efni ætlaðu fólki á öllum aldri.
Þar með hafa þau markmið sem lagt var upp með náðst og má það þakka öflugum hópi starfsfólks og eigendum sem standa þétt við bakið á útgáfunni. Alls koma um 20 manns að Eyjafréttum; blaðamenn, ljósmyndarar, umbrots- og prófarkalesarar, að ógleymdum blaðburðarbörnunum.
Áfram verður haldið og horft er til breytinga á árinu 2026. Fyrst má nefna breytt útlit bæði á blaði og fréttamiðli. Þá munu koma inn nýir þættir þar sem stefnt er að virkri þátttöku fólks utan ritstjórnar. Í janúar verður einnig tilkynnt um nýja handhafa Fréttapýramídanna, sem hafa verið fastur liður hjá okkur allt frá árinu 1987.
Handhafar eru þeir sem ritstjórn Eyjafrétta telur hafa gert Vestmannaeyjar betri og veitt samfélaginu framgang í anda þeirra gilda sem við viljum standa fyrir. Margir koma til greina, en upplýst verður um handhafana um miðjan janúar.
Spennandi ár er framundan. Bæjarstjórnarkosningar fara fram í maí og síðan tekur hver viðburðurinn við af öðrum. Við verðum á vaktinni, reynum að aðlaga okkur að síbreytilegu umhverfi fjölmiðla og höldum áfram að standa vörð um Vestmannaeyjar. Þar er af nógu að taka – að endurspegla það kröftuga mannlíf sem hér er og koma því á framfæri til enn fleiri en á nýliðnu ári.
Að lokum viljum við þakka starfsfólki, áskrifendum, auglýsendum, viðmælendum, greinarhöfundum og öllum þeim sem hafa lagt okkur lið á árinu.
Ómar Garðarsson – ritstjóri.
Tryggvi Már Sæmundsson – ritstjóri.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst