Mánudaginn 5. janúar hófst deildarkeppni Pílufélags Vestmannaeyja og er þetta annað árið í röð sem keppnin er haldin. Aðalstyrktaraðili deildarinnar í ár er Vöruhúsið og ber deildin því hið glæsilega nafn Vöruhúsdeildin 2026.
Alls eru 34 keppendur skráðir til leiks, sem er tveimur fleiri en í fyrra. Mótinu er skipt í fjórar deildir; tvær 8 manna deildir og tvær 9 manna deildir, þar sem allir spila við alla. Umferðirnar verða fjórar talsins og eftir hverja umferð falla tveir leikmenn niður um deild á meðan tveir vinna sig upp. Aðalmarkmið þessa fyrirkomulags er að spila sem flesta jafningjaleiki og tryggja reglulega keppni, í þeirri von að sjá sem mestar framfarir hjá pílukösturunum.
Eftir fjórðu umferð hefst útsláttarkafli mótsins þar sem lokastaða keppenda ræður mótherjum í fyrstu umferð útsláttarins. Í fyrra stóð Ólafur Birgir Georgsson uppi sem sigurvegari eftir sigur í úrslitaeinvígi gegn Atla Meldal. Líkt og í fyrra verða undanúrslit og úrslit spiluð sama kvöld og áhorfendur hvattir til að mæta og hafa gaman. Sá viðburður verður auglýstur nánar síðar en stefnt er að því að halda hann einhvern tímann í mars.
Í fyrra var keppnin einungis ætluð 18 ára og eldri, en í ár hefur stjórnin ákveðið að opna mótið og eru sex efnilegir peyjar skráðir til leiks. Enn er hægt að skrá iðkendur til æfinga hjá Pílufélagi Vestmannaeyja á vorönn. Skráning fer fram í gegnum Abler og er fyrsta æfingin laugardaginn 17. janúar, segir í tilkynningu frá Pílufélagi Vestmannaeyja.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst