Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku eftir að ljóst varð að fréttavefurinn Vísir hygðist fjalla um mál hans þar sem hann viðurkennir tilraun til vændiskaupa. Guðbrandur greinir sjálfur frá ákvörðun sinni í samtali við Vísi og segir hana tekna í ljósi alvarleika málsins og ábyrgðar sinnar sem kjörinn fulltrúi.
Samkvæmt umfjöllun Vísis átti málið sér stað árið 2012. Guðbrandur segir að hann hafi átt í samskipti við konu í þeim tilgangi að kaupa vændi og verið kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu. Hann segist þó hafa snúið við þegar á staðinn var komið og að málið hafi ekki leitt til ákæru né frekari aðgerða af hálfu lögreglu.
Í skriflegri yfirlýsingu til Vísis segist Guðbrandur hafa gert „stór mistök“ sem hann harmi djúpt. Hann biðst afsökunar á framferði sínu, ekki síst gagnvart fjölskyldu sinni, vinum og samstarfsfólki, og segir afsögnina eðlileg viðbrögð í ljósi stöðu sinnar og þess trausts sem almenningur verði að geta borið til kjörinna fulltrúa.
Guðbrandur kveðst ekki hafa rætt málið opinberlega fyrr og segir ákvörðunina um að segja af sér vera erfiða en nauðsynlega. Guðbrandur Einarsson var kjörinn á Alþingi fyrir Viðreisn í alþingiskosningunum árið 2021 og hefur setið þar síðan. Hann hefur meðal annars starfað í nefndum á vegum þingflokksins og var meðal annars formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Afsögn hans tekur gildi þegar í stað. Varþingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi er Sandra Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi í Hveragerði.